Umfangsmiklar björgunaraðgerðir eru nú í gangi á Everest-fjalli, hæsta fjalli heims, vegna mikillar ofankomu sem átti sér stað um helgina. Samkvæmt fréttum frá BBC hafa 350 göngumenn fundið skjól, en unnið er að því að koma 200 til viðbótar í öryggi. Flestir göngumennirnir voru staðsettir í dalnum Karma, sem liggur að austurhluta Everest.
Í vikunni hefur mikið snjóað á svæðinu og er talið að um þúsund göngumenn hafi verið fastir þar. Október er yfirleitt vinsæll mánuður fyrir þá sem reyna að sigrast á Everest, þar sem veðrið er oft hagstæðara en aðra mánuði. Hins vegar hefur veðrið verið óvenjulegt í Himalaya-fjöllunum undanfarið. Í Nepal hafa 47 manns látið lífið vegna aurskriða og úrhellisrigninga.
„Það var svo blautt og kalt, og veruleg hætta var á ofkólnun. Veðrið í ár er ekki eðlilegt. Leiðsögumaðurinn okkar sagði að hann hefði aldrei kynnst svona veðri í október. Þetta skall á allt í einu,“ sagði ónafngreindur göngumaður í viðtali við Reuters.
Geshuang Chen, 29 ára reyndur göngukona, lagði af stað frá Qudang-héraði á laugardag með áætlun um að ganga til Cho Oyu-grunnbúðanna, ferðir sem venjulega taka fimm daga. Veðurspá gerði ráð fyrir snjókomu á laugardeginum, en í gær átti að létta til. Hópur hennar ákvað því að halda sig við upphaflegu áætlunina. Þó versnaði veðrið skyndilega um nóttina, með eldingum, hvassviðri og óslitinni snjókomu.
„Þegar við vöknuðum var snjórinn þegar orðinn um metri á dýpt,“ sagði Chen, og bætti við að hópurinn hefði ákveðið að snúa við. Aðstæður voru verulega erfiðar, en hópurinn náði að komast í öruggt skjól. „Við erum öll reyndir göngumenn, en þetta óveður var samt ótrúlega erfitt viðureignar. Ég var ótrúlega heppin að komast heil frá þessu,“ sagði hún.