Páfi Leo XIV. ræddi um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar á ráðstefnu með blaðamönnum í Páfagarði á fimmtudaginn. Í ræðu sinni varaði hann við ýmsum skaðlegum aðferðum í nútíma blaðamennsku, þar á meðal notkun smellibeita.
„Samskipti verða að vera frjáls undan afvegaleiddum hugsunarhætti sem spillir þeim, undan óréttlátri samkeppni og lítilsvirðandi notkun svokallaðra smellibeita,“ sagði Leo við fundargesti sem eru meðlimir blaðamannasamtakanna Minds International.
Flestir sem vafrað hafa á netinu og lesið fréttir á vefmiðlum hafa rekist á smellibeitur. Með þessu hugtaki er yfirleitt átt við fyrirsagnir sem hannaðar eru til að fá lesendur til að smella á hlekk, oft með því að afbaka eða ýkja raunverulegt efni fréttarinnar.
Þá varaði Leo einnig við þeim áskorunum sem fréttamiðlar standa frammi fyrir vegna útbreiðslu gervigreindar. „Gervigreind er að breyta því hvernig við móttökum upplýsingar og tjáum okkur, en hver stýrir henni og í hvaða tilgangi?“ spurði hann. „Við verðum að vera á varðbergi til að tryggja að tækni taki ekki sess mannlegra vera, og til að upplýsingar og reikniritin sem stýra henni séu ekki í höndum hinna fáu.“