Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vísaði í dag manni út úr sundlaug í Reykjavík. Ástæða þess var að hann fannst með hníf í fórum sínum. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð, en var sleppt að lokinni skýrslutöku.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að alls séu skráð 65 mál í kerfinu frá klukkan 5 í morgun til klukkan 5 í dag. Þrír eru nú vistaðir í fangageymslu. Lögreglan var einnig kölluð að vegna manns sem var ölvaður og komst ekki inn heima hjá sér, en reyndi að sparka sér leið inn. Hann var beðinn um að láta af háttsemi sinni í þágu „næturóar“, eins og það er orðað í skýrslunni.
Auk þess var framin líkamsárás á svæði lögreglustöðvarinnar, þar sem þeim sem fyrir árásinni varð var ekið á slysadeild. Málið er nú til rannsóknar. Einnig var einstaklingur kærður fyrir að hrækja í andlitið á lögreglumanni.