Laxey hefur fengið jákvæða afgreiðslu frá umhverfis- og skipulagsráði Vestmannaeyja um að stækka athafnasvæði sitt í Viðlagafjöru. Samkvæmt heimildum hyggst fyrirtækið auka framleiðslugetu sína úr 11.500 tonnum í 42.000 tonn á ári og reisa seiðaeldisstöð á nýju svæði.
Í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja kemur fram að stækkunin er háð breytingum á aðalskipulagi. Stækkunin á að fela í sér nýja seiðaeldisstöð, yfirbyggð kerjuhús, auk mögulegrar uppbyggingar fyrir hrognaframleiðslu.
Seiðaeldisstöðin verður hönnuð í samræmi við núverandi seiðastöð Laxey í Friðarhöfn. Áætlað er að nýja seiðaeldisstöðin verði um 8.000 m² og eru tvær staðsetningar til skoðunar, norðan við núverandi athafnasvæði eða vestan.