Daníel Þór Ingason gat ekki tekið þátt í leik ÍBV gegn Haukum í 6. umferð úrvalsdeildarinnar í handbolta vegna meiðsla sem hann fékk við upptökur á markaðsefni HSÍ fyrir deildina. Framkvæmdastjóri HSÍ harmar atvikið og lýsir því sem óhappi.
Leiknum lauk með sigri Hauka, 39:29, á sunnudaginn, en Daníel Þór meiddist við upptökur daginn áður. „Svo veit maður ekki líka, það kom aðeins á hópinn í gær, í þessu slysi í boði HSÍ, að Daníel skyldi detta út. Ég held að það hafi komið aðeins við hópinn og við ekki haft mikinn tíma til að bregðast við því. Hann hefur verið lykilmaður í okkar varnarleik og slíkt, kannski var það aðeins of mikið sjokk,“ sagði Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is eftir leikinn.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði að atvikið í Vestmannaeyjum væri afar óheppilegt og í raun óhapp sem þeir harmi. „Við höfum tengt leikmanninn við okkar læknateymi hjá landsliðinu. Okkar læknar hafa litið á þær myndir sem komu úr myndatökunni sem hann fór í um helgina. Eins mun hann gangast undir læknisskoðun hjá okkar læknum. Mér skilst að Daníel sé á batavegi sem er mjög jákvætt. Það er fyrir öllu að við sjáum Daníel Þór á vellinum aftur sem allra fyrst,“ bætti Róbert við í samtali við Handkastið.