Norska liðið Brann hefur tilkynnt að íslenski landsliðsmaðurinn Sævar Atli Magnússon verði frá út leiktíðina vegna hneimeiðsla. Sævar hefur verið í frábæru formi fyrir Brann frá því hann kom frá Lyngby í sumar. Freyr Alexandersson, þjálfari Brann, lýsir þessu sem miklu áfalli.
„Þetta er mikið högg fyrir okkur sem lið og hann sem einstakling. Sævar er að spila sinn besta fótbolta. Ég leyfi mér að segja það þar sem ég hef verið í kringum hans feril ansi mikið. Hann hefur verið hreint út sagt stórkostlegur. Hann hefur verið rosalega góður í að setja okkar pressu í gang og skorað tíu mörk,“ segir Freyr í Íþróttavikunni á 433.is. Freyr var einnig þjálfari Sævars á sínum tíma í Lyngby.
„Svona er þetta bara. Hann er það sterkur andlega og svo er svo gott teymi í kringum hann að hann kemur bara ferskur til baka í janúar,“ bætir Freyr við.
Sævar meiddist í leik Íslands gegn Frakklandi, þar sem meiðslin urðu undir lok fyrri hálfleiks. Freyr viðurkennir að þegar Sævar þurfti að yfirgefa völlinn, hafi hann skilið að eitthvað alvarlegt væri á seyði. „Já, þá vissi ég strax að það væri eitthvað mikið að. Sævar setur liðið alltaf í fyrsta sæti, og það hefði hjálpað liðinu ef hann hefði getað haltrað í gegnum þrjár mínútur fram að hálfleik til að spara skiptinguna. En þegar hann gat ekki gert það vissi ég að það væri eitthvað alvarlegt að. Ég óttaðist að þetta væri krossband en það var allavega ekki það og hann er frá í nokkra mánuði. En þetta er alls ekki gott,“ segir Freyr.
Freyr og Sævar hafa unnið mikið saman áður og er Freyr stoltur af Sævari vegna frammistöðunnar undanfarið. „Það er þannig þegar leikmenn tengjast þjálfaranum að það er mikil pressa bæði á honum og þjálfaranum. Bæði ég og aðstoðarþjálfarinn minn vissum að hann gæti virkilega blómstrað hjá okkur. Ég er mjög stoltur af honum og hvernig þetta hefur gengið.“