Heimsókn Höllu Tómasdóttur forseta Íslands til Kína lauk í gær, eftir að hafa staðið yfir frá sunnudegi. Þetta var fyrsta heimsókn íslensks forseta til Kína í fimmtán ár. Í ferðinni átti Halla fundi með mörgum ráðamönnum, þar á meðal Xi Jinping, forseta Kína.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, var ekki með í för forsetans en lýsti yfir ánægju sinni með málflutning forsetans í Kína. Hún sagði: „Mér sýnist að það hafi tekist afskaplega vel til. Forseti Íslands, eins og alltaf, kom mjög vel fram og talaði fyrir okkar gildum og okkar sjónarmiðum, svona grunnprinsippum í íslenskri utanríkisstefnu í gegnum tíðina um að standa með lýðræði, frelsi, mannréttindum.“
Hún bætti við að Halla hafi sérstaklega ítrekað afstöðu Íslands í tengslum við Úkraínu og almennt varðandi stríð í heiminum. „Við erum þjóð sem vill frið, stöndum með lýðræðishyggju, það er það sem við gerum og þeim skilaboðum var skýrt komið á framfæri við Kínverja,“ sagði Þorgerður.
Þorgerður talar einnig um að samskipti Íslands og Kína séu góð, líkt og við aðrar norðurlandaþjóðir. Hún lagði áherslu á að Ísland hafi skýr sjónarmið þegar kemur að grundvallargildum. „Það ber að virða lýðræði, berjast fyrir frelsinu og ekki síst tala í þágu mannréttinda,“ sagði hún.
Aðspurð um hvort Kínaforseta hafi verið boðið til Íslands, sagði Þorgerður að ýmislegt komi fram í slíkum ferðum en engin formleg samtöl hefðu hafist um það.