Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, lýsti yfir ánægju sinni með frammistöðu ungu leikmannanna eftir 5-1 sigur á Ajax í Meistaradeildinni. Leikurinn fór fram í kvöld, þar sem Maresca gerði tíu breytingar á byrjunarliðinu.
Estevao, Marc Guiu og Tyrique George, skoruðu í leiknum, auk miðjumannanna Enzo Fernandez og Moises Caicedo. Maresca sagði að rautt spjald, sem Ajax fékk í fyrri hálfleik, hafi breytt gangi leiksins. „Rauða spjaldið breytti leiknum. Við vitum hversu erfitt það er að fá rautt spjald,“ útskýrði hann.
Maresca greindi frá því að liðið hafi byrjað leikinn vel, og að hann hafi ákveðið að gera umfangsmiklar breytingar til að aðlaga sig að krefjandi tímabili. „Við þurfum að rotera hópnum þar sem það getur verið flókið fyrir þá sem spila alla leikina,“ bætti hann við.
Aðspurður um rauða spjaldið sagði Maresca: „Við vitum að þegar þú færð rautt spjald þegar tíu mínútur eru eftir, þá er það í lagi, en þegar meira en klukkutími er eftir, þá verður þetta erfitt fyrir alla.“ Hann lagði áherslu á að treysta ungu leikmönnum og sagði: „Þetta eru aðferðir félagsins, ekki bara að leyfa þeim sem við kaupum að spila heldur líka að taka menn upp úr akademíunni.“
Þrátt fyrir sigurinn taldi Maresca að liðið hefði getað skorað fleiri mörk. „Við reyndum að stýra leiknum,“ sagði hann. „Á laugardag mætum við Sunderland og þeir eru líkamlega sterkir. Við erum ánægðir, en allir leikir eru ólíkir,“ lauk Maresca máli sínu.