Afstaða, félag fanga á Íslandi, hefur nú opnað nýjar höfuðstöðvar að Guðrúnartúni 1 í Reykjavík. Formaður félagsins, Guðmundur Ingi Þoroddsson, lýsir þessu sem mjög stórt skref sem mun auka starfsemi félagsins verulega.
Í gær var haldið opið hús í tengslum við opnunina. „Við munum geta tekið miklu meira af viðtölum hjá okkur, við gátum það minna áður. En í dag er þetta aðgengilegra fyrir alla sem þurfa á okkar þjónustu að halda,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Að auki bendir hann á að félagið sé nú komið með höfuðstöðvar sínar í sama húsnæði og önnur félög sem það hefur samstarf við, þar á meðal Matthildarsamtökin og Geðhjálp, sem gerir samstarfið auðveldara. „Við höfum hingað til verið að fara út um allan bæ. Okkar sjálfboðaliðar hafa verið að fara að hitta aðstandendur út um allan bæ, á kaffihúsum og slíkt, en með þessu náum við að sameina í raun öll viðtöl, fundi, námskeið og annars konar viðburði,“ útskýrir Guðmundur.
Hann tilkynnir einnig að opið hús fyrir aðstandendur verði haldið hér í hverjum mánuði, alltaf þriðja miðvikudag í mánuði. „Þetta er, teljum við, mjög stórt skref fyrir okkur,“ bætir hann við.
Á fundinum var einnig undirritaður samstarfssamningur milli Afstöðu og Fangelsismálastofnunar um jafningjastuðning og ráðgjöf í fangelsum landsins. Guðmundur útskýrir að þetta sé að formfesta verkefni sem þau hafa þegar verið að vinna að. „Þetta hefur aldrei verið formfest hingað til, en þarna erum við að skrifa undir viljayfirlýsingu um að vinna betur saman,“ segir hann.
Samningurinn tryggir að Afstaða muni halda námskeið og þjálfa sjálfboðaliða félagsins vel. „Við byrjuðum bara á þessu fyrir löngu síðan og þetta hefur þróast og stækkað. Félagið okkar er búið að stækka ótrúlega á síðustu árum og áratugum,“ segir Guðmundur og bætir við að málafjöldi hjá þeim sé að aukast gríðarlega.
Hann tekur fram að erfiðleikar geti komið upp hjá fjölskyldum og fólki sem er handtekið og sett í fangelsi, og að það sé mikilvægt að veita þeim stuðning og ráðgjöf um næstu skref. „Að taka svolítið utan um aðstandendur hefur svolítið vantað,“ segir Guðmundur, sem einnig nefnir að félagið sinni mannréttindamálum og fylgist með umræðunni um málefni fanga og fangelsa.
„Okkar markmið í því er auðvitað að samfélagið taki betur á móti fólki eftir afplánun með því að fækka fordómum og auka skilning fólks,“ segir hann að lokum.