Á 18. ágúst greindi fréttastofa Reuters frá því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði sent þrjú herskip til karabíska hafsins. Skipin áttu að koma til að bregðast við ógn sem stafaði af eiturlyfjahringjum frá Rómönsku Ameríku. Trump hefur áður lýst yfir vilja til að nota herinn gegn glæpahópum sem smygla eiturlyfjum og kallaði þau alþjóðleg hryðjuverkasamtök. Aðgerðin kom þó óvænt og án fyrirvara, með 4.000 hermönnum um borð.
Í fréttinni var jafnframt boðað að fleiri skip, flugvélar og minnst einn árásarkafbátur fylgdu í kjölfarið. Umfjöllun um málið má heyra í Heimskviðum sem eru á dagskrá eftir hádegisfréttir á Rás 1.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, brást illa við þessu. Hann sagði þetta enn eina aðferð Bandaríkjamanna til að koma sér frá völdum – áður hefði það verið kommúnismi, núna væri það eiturlyfjasmygl. Trump hefur sakað Maduro um beina stjórn á eiturlyfjahringjum og um svipað leyti tvöfaldaði bandarísk stjórnvöld verðlaunafé til höfuðs Maduro, sem nú er 50 milljónir bandaríkjadala.
En aðgerðir bandaríkjahers gengu enn lengra. 2. september tilkynnti Trump á samfélagsmiðli sínum Truth Social að fyrsta loftárásin hefði verið gerð á hraðbát frá Venesúela í karabíska hafinu, þar sem allir ellefu um borð hefðu farist. Með þessu birti Trump myndskeið af atvikinu sem átti sér stað daginn áður, fyrsta september.
Yfir 60 manns hafa verið drepnir í árásum Bandaríkjamanna á báta við strendur Venesúela, þar sem þeir segja að smygli fíkniefna sé um að ræða. Aðgerðirnar hafa haft áhrif á stjórnmálaástandið víða í Rómönsku Ameríku. Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, boðaði frekari aðgerðir. „Þessu lýkur ekki þarna. Allir sem sigla á þessu hafsvæði, og við vitum að eru eiturlyfjahryðjuverkamenn, verða sömu örlögum að búa. Og það er mikilvægt fyrir bandarísku þjóðina að vernda heimalandið og landhelgina,“ sagði Hegseth við Fox sjónvarpsstöðina.
Þegar þetta er skrifað hafa Bandaríkjamenn ráðist á yfir tólf báta á Kyrrahafinu og karabíska hafinu frá því annar september, mest hraðbáta. Í þessum árásum hafa 61 verið drepinn samkvæmt talningu AFP fréttastofunnar, sem byggir á tölum frá bandarískri stjórn. Bæði flugvélar og skip hafa verið notuð í þessum árásum.
Trump sagði að stjórnvöld í Venesúela hefðu tæmt fangelsi landsins inn í Bandaríkin. Hann var meðal annars spurður hvort til stæða væri að fá þingið til að lýsa yfir stríði á hendur Venesúela. „Við ætlum ekki endilega að biðja um stríðsyfirlýsingu frá þinginu. Við ætlum bara að drepa fólk sem kemur með eiturlyf inn í landið okkar. Við ætlum að drepa það. Skilurðu, það verður sko daðið,“ sagði Trump.
Viðbúnaður Bandaríkjanna hefur farið sívaxandi. Á föstudaginn í síðustu viku var flugmóðurskip með öllu því liði sem því tilheyrir sent á vettvang. Þá hafa alls tíu F-35 orustuþotur og átta skip verið notuð í aðgerðunum. Trump hefur gefið til kynna að hann hafi heimilað bandarísku leyniþjónustunni, CIA, að fara í sérstaka leyniaðgerð gegn Venesúela, án þess að útskýra það nánar.
Engar sannanir hafa verið lagðar fram um að báturnir eða mennirnir á þeim tengist fíkniefnasmygli. Þvert á móti hafa borist fregnir af því að margir þeirra hafi verið venjulegir sjómenn. Einn þeirra var hinn kolumbíski Alejandro Carranza, sem var að sögn ekkju hans við veiðar í karabíska hafinu undan ströndum Kolumbíu – meðal annars á túnfiski og makríli. Hann hafði talað við föður sinn um að hann væri á leið á góðan veiðistað. Síðan heyrðist ekkert frá honum í nokkra daga. Fjölskyldan heyrði af árásinni í sjónvarpi. „Af hverju var hann drepinn á þennan hátt? Sjómenn eiga rétt á að lifa. Af hverju handtóku þeir þá bara ekki?“ sagði ekkjan. Gustavo Petro, forseti Kolumbíu, sem hefur gagnrýnt viðveru bandaríska hersins í karabíska hafinu, lýsti einnig yfir sakleysi Carranza og skipsfélaga hans. Hann hefði engin tengsl við fíkniefnasmygl og árásin hefði einfaldlega verið morð.
Kolumbískir fjölmiðlar greindu reyndar frá því að hann hefði hlotið dóm fyrir að stela vopnum í samfloti með glæpagengjum. Saksóknarar hafa hvorki viljað staðfesta né neita þeim fréttum, en einn þeirra sem lifði þá árás af, þó alvarlega slasaður, á yfir höfði sér ákæru fyrir fíkniefnasmygl. Annar sjómaður sem farist hefur í árásunum var frá Trinidad og Tobago – Rishi Samaroo. Hann átti líka sakaferil að baki – var dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir morð þegar hann var á taningsaldri. Eftir það flutti hann til Venesúela, rak geitabú sem framleiddi ost og var líka á sjó. Vinir hans segja að hann hafi aldrei notað eða selt eiturlyf – hann hafi ekki einu sinni reykt sígarettu eða neitt áfengis alla sína ævi. Á sama báti var samlandi hans, hinn 26 ára Chad Joseph, sem hafði samkvæmt fjölmiðlum í Trinidad og Tobago verið sakaður um fíkniefnasmygl fyrr á árum en var aldrei dæmdur fyrir það.
Sameinuðu þjóðirnar segja að aðgerðir Bandaríkjamanna brjóti gegn fullveldi landsins og stofnsáttmála samtakanna. Að auki brjóti þær gegn grundvallarskuldbindingum um að skipta sér ekki af innri málefnum eða hóta að beita hervaldi gegn öðru landi. Þetta sé hættuleg stigmögun sem hafi alvarlegar afleiðingar fyrir frið og öryggi í karabíska hafinu. Og jafnvel þó fullyrðingar um eiturlyfjasmygl á bátnum séu réttar sé það brot á alþjóðalögum að beita vopnavaldi á alþjóðlegu hafsvæði án lagagrundvallar. Það jafnist á við aftöku án dóms og laga.
Sameinuðu þjóðirnar benda líka á að hópar eins og Tren de Aragua, sem er einn þeirra sem árásirnar beinast gegn og Trump hefur kallað hryðjuverkasamtök, sé ekki að ráðast á Bandaríkin og því geti stjórnvöld þar ekki vísað í ákvæði í alþjóðalögum um rétt til að verja sig.
Spurningin sem hefur vaknað meðal sérfræðinga og annarra er: Ef Bandaríkjamenn eru svona vissir um að báturnir hafi verið að smygla eiturlyfjum, af hverju voru þeir þá ekki stöðvaðir og gerð leit í þeim í stað þess að sprengja þá fyrirvaralaust í loft upp? Það væri lítið mál að handtaka mennina ef það fyndust síðan eiturlyf í bátnum. Þessu hafa bandarísk stjórnvöld ekki svarað.
Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar frekar fært sig upp á skaftið í orðræðunni en hitt. Fyrir nefndur Pete Hegseth sagði þegar hann tilkynnti um árás fyrir rúmri viku á X, þar sem sex voru drepnir: „Ef þið eruð eiturlyfjahryðjuverkamenn sem smygla eiturlyfjum inn í okkar landhelgi förum við með ykkur eins og Al Qaeda. Nóttu sem nýtan dag kortleggjum við sölu net ykkar, höfum upp á fólki sem vinnur fyrir ykkur, náum ykkur og drepum ykkur.“
En hvers vegna er ríkisstjórn Trumps að fara í þessar aðgerðir núna, þar sem hann hefur lengi verið gagnrýninn á Maduro sem forseta, og hefur alls ekki verið einn um það? „Núna er verið að tala meira um stríð gegn fíkniefnum. Það breytist mikið við það því að í stríði er allt leyfilegt,“ segir Dylan Herrera, doktorsnemi í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands. Hann er frá Kolumbíu en hefur verið búsettur hér á landi í sex ár. Hann segir þessa nálgun hættulega og vísar hann þar í yfirlýst stríð gegn hryðjuverkum í upphafi aldarinnar sem kostaði mörg manns líf. Þá eins og nú sé árangurinn óljós. Trump hefur sérstaklega talað um fentanyl sem vandamál en það er aðallega framleitt í Mexíkó og Kína og því breyta þessar árásir ekki miklu í þeim efnum.
Dylan telur að Trump sé með þessu að efna kosningaloforð um að berjast gegn fíkniefnum. „Þetta er eitthvað sem er einfalt að gera til að sýna að hann sé að berjast í þessu stríði. Hann getur með þessu sent sterk skilaboð fyrir sitt fólk. Hann sagði að með því að skjóta á þessi skip væri verið að bjarga 25 þúsund manns lífum. Ég held að þetta séu skrítin tölur, en þetta er það sem hann er að hugsa.“
Nicolas Maduro hefur sagt að raunverulegur tilgangur aðgerða Trumps sé að reyna að steypa sér af stóli. „Hann talar mikið um að setja Ameríku í forgang,“ segir Dylan. „Hluti af því er að spara peninga og ekki fara í stríð erlendis. Af hverju ætlar hann þá að hefja nýtt stríð gegn Suður-Ameríku? Hann vill senda skilaboð um að hann vilji gera breytingar, en hann vill þá senda þau skilaboð til fólks í Venesúela. Hann geti með þessu gert eitthvað sem hafi afleiðingar inni í landinu.“
Þessi atburðarás hefur haft áhrif á samskipti Venesúela við fleiri lönd. Bandaríski herinn var meðal annars með litla æfingu við Kyrrahafsstönd Panama. Þar var verið að líkja eftir innrás í byrgi. Svæðið hefur verið sameiginlegt æfingasvæði bandaríska sjóhersins og lögreglunnar í Panama síðan í ágúst samkvæmt nýju samkomulagi. Yfirvöld í Panama sögðu að markmiðið væri að æfa varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi og fíkniefnasmygli. Stjórnvöld í Venesúela líta á þetta sem ögrun.
Í þessari viku kom herskip til hafnar í Trinidad og Tobago til að taka þátt í æfingu undan ströndum Venesúela. Stjórnvöld í Venesúela voru ósátt við að Trinidad heimilaði þetta og slitu samningi við ríkið um kaup á gasi. Stjórnvöld í Trinidad svöruðu með því að hóta að vísa fjölda ólöglegra innflytjenda frá Venesúela úr landi. Vaxandi spenna er því á milli þessara landa.
Innan Venesúela er líka pólitísk spenna. Maduro sagðist á fundi með herforingjum hafa til taks 5000 rússneskar eldflaugar af gerðinni Igla-S til gagnárásar á bandarískt herlið – „til að tryggja frið“ eins og hann orðaði það. Þessar flaugar eru aðallega notaðar til að skjóta niður flugvélar í lágflugi. Eftir að aðgerðir Bandaríkjamanna hófust fyrirskipaði Maduro heræfingar þar sem þessar flaugar voru notaðar. Þetta vakti hörð viðbrögð hjá öðrum leiðtogum í Rómönsku Ameríku.
Í síðustu viku virtist hann, eftir að Trump hafði tilkynnt um aðgerð á vegum CIA, biðjast vægðar. „Ekkert stríð, ekkert stríð, ekkert stríð, bara friður, bara friður. Ekkert brjálæðislegt stríð,“ sagði hann á ensku þegar hann fundaði með verkalýðsfélögum sem eru hliðholl honum, en sakaði jafnframt Trump um að vera að búa til stríð.
Vladimir Padrino, varnarmálaráðherra landsins, hefur einnig sagt að allar aðgerðir CIA gegn landinu muni mistakast. Þá muni herinn ekki leyfa að ríkisstjórn taki við völdum sem beygi sig undir hagsmuni Bandaríkjanna.
Það er þó til fólk sem hefur fagnað þessum aðgerðum. Flavio Bolsonaro, brasílískur þingmaður og sonur Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta landsins og mikils bandamanns Trump, hvatti bandarísk stjórnvöld til að sprengja líka báta í Rio de Janeiro til að berjast gegn eiturlyfjasmygli. „Ég hef heyrt að það séu líka svona báta hér í Rio de Janeiro, í Guanabara-flóa, þar sem eiturlyf flæða inn í Brasilíu. Værirðu ekki til í að vera hér í nokkra mánuði og hjálpa okkur að berjast við þessi hryðjuverkasamtök?“ sagði hann í svari við færslu Pete Hegseth á X, með myndskeiði af einni árásinni.
Nicolas Maduro hefur verið sakaður um margt á valdatíma sínum í Venesúela, og einna helst spillingu. Hann var endurkjörinn forseti í fyrra í umdeildum kosningum þar sem flestar þjóðir telja að rangt hafi verið haft við. Eftir þær hafa komið fram ásakanir um að hann hafi varpað pólitískum andstæðingum kerfisbundið í fangelsi. Mannréttindasamtök telja mannréttindi brotin á föngunum.
Fyrir rúmri viku voru sautján kolumbískir fangar sem dvöldu í fangelsum í Venesúela frelsaðir. Utanríkisráðuneyti Kolumbíu sagði að það hafi verið árangur af margra mánaða samningaviðræðum. 20 Kolumbíumenn til viðbótar eru enn í fangelsi vegna ásakana um njósnir eða samsæri gegn stjórnvöldum í Venesúela. Líkum er leitt að því að þessi ráðstöfun sé afleiðing hernaðar Bandaríkjamanna gegn Venesúela. Þar hafa löndin tvö, sem hafa átt í stirðu sambandi lengi, fundið sameiginlegt baráttumál. Meira að segja FARC, skæruliðasamtök sem lengi voru allsráðandi í Kolumbíu, hafa tekið afstöðu með stjórnvöldum í baráttunni gegn þessum hernaði Bandaríkjamanna.
Bandarísk stjórnvöld hafa brugðist við með viðskiptaþvingunum á Petro forseta Kolumbíu, konu hans, syni og ráðgjafa. Marco Rubio tilkynnti jafnframt að Kolumbía yrði tekin af lista samstarfsaðila gegn eiturlyfjum í fyrsta sinn í 30 ár – eða frá því fíkniefnaforinginn Pablo Escobar var drepinn. Bandaríkin hafa jafnframt hótað að hætta