Oliver Steadman, fyrrverandi fulltrúi Verkamannaflokksins í bæjarstjórn Islington í norðurhluta Lundúna, hefur verið ákærður fyrir að beita William Wragg, fyrrverandi þingmanni Ihaldsflokksins, fjárkúgun. Steadman leiddi Wragg í gildru á stefnumótaappi, en markmiðið var ekki að afla fjár, heldur að fá símanúmer annarra þingmanna.
Málið vakti mikla athygli í Bretlandi á síðasta ári. Wragg viðurkenndi að hafa sent kúgaranum, sem talinn er vera Steadman, símanúmer annarra þingmanna, starfsmanna þeirra og blaðamanna. Talið er að Wragg hafi sent um 12 númer. Kúgarinn hafði fengið Wragg til að senda nektarmyndir af sjálfum sér, eftir að þeir höfðu kynnst á stefnumótaappi Grindr, sem er ætlað samkynhneigðum. Kúgarinn hótaði að birta myndirnar ef Wragg myndi ekki senda honum númerin, og lét Wragg undan.
Wragg sagði að hann og kúgarinn, sem gekk undir nafninu Charlie, hefðu haft góð samskipti. Hann taldi mögulegt að hann væri að kynnast einhverjum sem hann gæti endað í rómantísku sambandi við, og því sendi hann myndirnar. Talið er að reynt hafi verið að leiða fleiri þingmenn í gildru á sama hátt áður en Wragg varð fyrir þessu, þar sem þeir sem áttu símanúmerin sem Wragg sendi Charlie fengu óumbeðin daðursfull skilaboð.
Wragg hugleiddi sjálfsvíg og leitaði sér lækninga eftir að málið komst upp. Hann sagði sig úr Ihaldsflokknum og bauð sig ekki fram til endurkjörs í þingkosningunum á síðasta ári. Í kjölfar rannsóknar lögreglu á málinu beindust spjótin að Steadman, sem talinn er vera Charlie. Hann hefur nú verið ákærður fyrir fjárkúgun gegn Wragg og fyrir að senda móðgandi, óhæfa og ógnandi skilaboð til hans og fjögurra annarra. Steadman, sem er 28 ára, gengur laus gegn tryggingu og verður mál hans tekið fyrir af dómaranum í desember næstkomandi.