Tvítugur námsmaður frá Sri Lanka, sem hefur búið í Ottava í Kanada, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða sex manns. Meðal fórnarlamba hans eru móðir og fjögur börn hennar á aldrinum tveggja mánaða til sjö ára. Morðin áttu sér stað í mars á síðasta ári.
Borgarstjóri Ottava lýsti morðunum sem einu alvarlegasta ofbeldisverki í sögu borgarinnar, samkvæmt upplýsingum frá BBC. Maðurinn, Febrio De-Zoysa, bjó í kjallaranum hjá fjölskyldunni sem hann réðist á með veiðihníf. Auk fjölskyldunnar lést einnig fjölskylduvinur í árásinni, en fjölskyldufaðirinn slasaðist.
Fórnarlömbin voru einnig frá Sri Lanka en höfðu búið í Kanada um áratugaskeið. De-Zoysa sagði í dómsal að fjölskyldan hefði verið góð við sig, en að hann hefði glímt við andleg veikindi þegar hann framdi verknaðinn. Í rannsókn málsins kom fram að hann myrti fjölskylduna vegna fjárhagslegra erfiðleika og ótta um að snúa aftur til Sri Lanka þegar námsmannadvalarleyfi hans rynni út.
Morðin voru framdir með veiðihníf sem De-Zoysa keypti mánuði áður í þeim tilgangi að svipta sig lífi. Hann baðst fyrirgefningar á gjörðum sínum og sagði: „Ég mun eyða því sem eftir er af lífi mínu í að átta mig á því sem ég raunverulega gerði.“ Dómarinn fordæmdi De-Zoysa fyrir „heimskulegar og hryllilegar“ gjörðir, og sagði: „Þú ert það sem við óttumst í martröðum okkar, þú hefur valdið svo miklum missi og sorg.“ De-Zoysa getur ekki óskað eftir reynslulausn næstu 25 árum.