Belarús hefur sleppt 52 pólitískum föngum, þar á meðal stjórnarandstæðingum, blaðamönnum og mótmælendum. Þetta var tilkynnt í gær af Gitanas Nauseda, forseta Lita í færslu á samfélagsmiðlinum X. Nauseda skrifaði: „Enginn maður skilinn eftir!“
Hann benti á að 52 fangar fóru óhultir yfir landamærin frá Belarús og lögðu að baki gaddavír, lokaða glugga og stöðugan ótta. Á meðal fanganna voru sex Lita. Nauseda þakkaði Bandaríkjunum og Donald Trump, Bandaríkjaforseta, fyrir viðleitni þeirra til að leysa pólitíska fanga úr haldi.
„52 er mikið,“ skrifaði Nauseda. „Heilmikið. En rúmlega 1.000 pólitískir fangar eru enn í belarúskum fangelsum og við getum ekki látið staðar numið fyrr en þeir fá frelsi!“
Fangarnir voru leystir úr haldi skömmu eftir fund Alexanders Lukashenko, forseta Belarús, með John Cole, sendifulltrúa Trumps, í Minsk á fimmtudagsmorgun. Bandaríkin samþykktu jafnframt að aflétta efnahagsþvingunum á belaruíska ríkisflugfélagið Belavia.
Svjatlana Tsikhanouskaja, leiðtogi belarúsku stjórnarandstöðunnar, fagnaði því að fangarnir hefðu verið leystir úr haldi í færslu á X og þakkaði Bandaríkjunum fyrir sterka forystu. Eiginmaður hennar, Sjarhej Tsikhanouski, var einnig leystur úr fangelsi í júlí eftir að hafa verið í haldi í um hálfan áratug.