Robyn Denholm, stjórnarformaður Tesla, hefur staðfest að fyrirtækið muni bjóða Elon Musk launapakka upp á eitt þúsund milljarða dala. Í viðtali við Financial Times sagði hún að til að uppfylla skilyrði launasamningsins, sem hluthafar þurfa að samþykkja í nóvember, verði Musk að framkvæma „ómögulega hluti“.
Denholm útskýrði að til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem Tesla hefur sett, sé nauðsynlegt að Musk leggi fram meiri tíma, kraft og orku en flestir geti hugsað sér. Hún bætti við að ef honum tækist að uppfylla skilyrðin ætti hann rétt á fordæmalausum verðlaunum. „Hann er einstakur leiðtogi. Við teljum að hann hafi það sem þarf til að ná þessum árangri. Stjórnina hefur hér tækifæri til að hvetja Elon til að gera ómögulega hluti,“ sagði hún.
Í síðustu viku kynnti stjórn Tesla tillögu um að veita Musk launapakka sem gæti falið í sér 12% hlut í fyrirtækinu ef hann nær að átta sinnum auka markaðsvirði þess yfir tíu ára tímabil. Einnig eru skilyrðin meðal annars að fjórfalda hagnað fyrirtækisins og selja milljónir bílanna og róbóta.
Samkvæmt Financial Times gæti Musk, ef hann nær einungis helmingnum af markmiðunum, orðið fyrsti einstaklingurinn í heiminum með áætlaða auðæfi yfir eitt þúsund milljarða dala.
Denholm hafnaði því að peningar væru sérstakur hvati fyrir Musk, sem þekktur er sem ríkasti maður heims með auðæfi upp á 419 milljarða dala. Hún sagði að launapakkinn væri hannaður svo að Musk eignist stærri hlut í fyrirtækinu í áföngum ef honum tekst að skila hluthöfum verðmæti upp á þúsund milljarða dala. Hún lagði áherslu á að Musk þyrfti að bíða í meira en sjö ár til að innleysa hlutabréfaréttindi sín.
„Hann hefur verið mjög opinber um að atkvæðaréttur sé honum mikilvægur. Ég myndi segja að peningar séu það ekki,“ sagði Denholm. „Mikilvægt er að árétta að hann gæti ekki fengið neina þóknun nema ef hann kemst að markmiðum sínum.“
Musk hefur áður hótað að segja upp störfum hjá Tesla ef hann fær ekki að eignast a.m.k. 25% hlut í fyrirtækinu. Hann hefur haldið því fram að slíkur eignarhlutur sé nauðsynlegur til að verja sig fyrir aðgerðasinnum á meðan Tesla þróar gervigreindartækni, sjálfkeyrandi bíla og milljónir róbóta.
Denholm taldi þessa hótun Musk trúverðuga. „Hann hefur áhugamál á öðrum sviðum þar sem hann gæti skilað verulegum framfaram í þágu mannkyns,“ sagði hún og vísaði m.a. til SpaceX og xAI, fyrirtækja Musk sem eru metin á 400 milljarða dala og 200 milljarða dala.