Mariia Alekhina, íslenskur ríkisborgari og liðskona Pussy Riot, hefur verið dæmd til 13 ára fangelsisvistar í Rússlandi. Hún og fimm aðrar liðskonur hljómsveitarinnar hlutu dóma fyrir að vanvirða rússneska herinn. Rússneska fréttaveitan RIA greinir frá þessu.
Alekhina fékk þyngsta dóminn, en aðrar liðskonur, þar á meðal Taso Pletner, Diana Burkot, Alina Petrova og Olga Borisova, hlutu dóma sem kveða á um fangelsisvist í 8 til 11 ár. Engin þeirra er núna í Rússlandi.
Alekhina hefur áður verið dæmd til fangelsisvistar í Rússlandi vegna óspektar, og hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 2023, ásamt Lucy Shtein. Þær flúðu Rússland á dramatískan hátt árið áður, meðal annars með aðstoð Ragnars Kjartanssonar.