Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að fresta gildistöku banns á samfélagsmiðlinum TikTok til 16. desember. Þetta er í fjórða sinn sem framkvæmd bannsins er sett á ís.
Í gær undirritaði Trump forsetatilskipun sem kveður á um frestunina. Einnig tilkynnti hann að samkomulag hefði verið náð við kínverska eigendur TikTok um nýtt eignarhald á bandarískri starfsemi miðilsins.
TikTok var óvirkt í Bandaríkjunum í einn dag í janúar eftir að lög um að banna TikTok tóku gildi, en Trump frestaði þá banninu um 75 daga.
Bannið á TikTok byggir á lögum sem samþykkt voru í fyrra á forsetatíð Joe Biden. Lögin kveða á um að móðurfélagið ByteDance, kínverskt tæknifyrirtæki sem á TikTok, þurfi að selja bandaríska hluta starfsemi sinnar vegna þjóðaröryggissjónarmiða.
Bandarísk stjórnvöld hafa lengi haft áhyggjur af mögulegri gagnaöflun í þágu kínverskra stjórnvalda í gegnum forritið. TikTok hafnar slíkum ásökunum og hefur leitað réttar síns hjá dómstólum.
Trump hefur gefið í skyn að rammasamkomulag sé í höfn og að hann muni ræða við Xi Jinping, forseta Kína, á föstudag til að formfesta það. Samkvæmt frétt í Wall Street Journal er gert ráð fyrir að bandarískir fjárfestar, þar á meðal Oracle og Andreessen Horowitz, muni eignast um 80 prósent í nýrri bandarískri einingu TikTok. ByteDance mun þó halda innan við fimmtung eignarhaldsins.