Alþingi samþykkti í gær skýrslubeiðni frá Kolbrúnu Áslaugu Baldursdóttur, þingmanns Flokks fólksins, er varðar aðbúnað og velferð svína. Kolbrún vill að gerð verði úttekt á halaklippingum og því að tennur séu dregnar úr þessum dýrum, auk þess að fá upplýsingar um notkun gasklefa við aflífun.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem beiðnin er samþykkt; hún var einnig samþykkt á síðasta þingi, en þá kom ekki skýrsla frá ráðherra. Í ræðu sinni í gær kallaði Kolbrún eftir skýrum upplýsingum um aðbúnað og meðferð svína á ræktunarbúum í landinu. Hún lýsti því að upplýsingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum virðast ekki samræmast lögum um velferð dýra.
Kolbrún lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að fá upplýsingar um hversu algengar halaklippingar eru og hverjir framkvæma slíkar aðgerðir. Hún benti á að dýrin séu ekki deyfð fyrir slíkar aðgerðir, sem kallar á frekari skoðun.
Hún óskaði einnig eftir upplýsingum um hversu oft tennur svína séu klipptar til að draga úr halabiki. Að lokum lagði hún áherslu á að skoða þyrfti sérstaklega hvernig notkun gasklefa samræmdist reglugerðum og lögum um dýravelferð.