Afturelding tryggði sér stórsigur á KA, 36:27, í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld á Varmá í Mosfellsbæ. Þjálfarinn Stefán Árnason var ánægður með frammistöðu sinna manna.
„Ég var mjög ánægður hvernig við komum inn í leikinn. Við vorum þéttir og öflugir varnarlega og náðum góðri forystu. Við vorum með góð tök á leiknum, þó lentum við í smá vandræðum þegar KA fór að spila með aukamann í sókninni. En við vorum komnir í góða stöðu og kláruðum þetta vel,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is.
Hafði KA liðið komið þér á óvart? „Það kom mér á óvart að hafa unnið leikinn svona stórt. Mér hefur fundist KA-liðið vera mjög flott, og Andri Snær er að gera góða hluti. Það hefur verið svakalegur kraftur í þeim og ég bjóst við hörkuleik. En við þurftum að hafa mikið fyrir þessu, og ástæðan fyrir forystunni í byrjun er að framlagið hjá mínum mönnum var gríðarlega gott,“ bætti Stefán við.
Sóknarleikur Aftureldingar var frábær í kvöld og mjög fjölbreyttur. „Já, við erum alltaf að vinna í því. Við höfum marga góða leikmenn og erum með mjög jafnt lið. Í dag fengum við menn inn af bekknum með góð mörk, við gátum rúllað liðinu vel og fengum framlag frá mörgum leikmönnum. Þannig að þeir sem byrjuðu gátu komið aftur inn ferskir. Við erum að reyna að nýta hópinn okkar sem best,“ sagði Stefán.
Myndirðu segja að breiddin ykkar sé góð? „Við spiluðum á að ég held þrettán mönnum í fyrri hálfleik og það komust margir á blað. Breiddin okkar er góð og það er einn af okkar styrkleikum. Það skiptir miklu máli. Það er ekki nóg að rúlla bara liðinu, þegar menn koma inn þurfa þeir að hjálpa liðinu, og það var svo sannarlega þannig í dag. Við getum verið sáttir að þessu leyti. Við verðum að halda svona áfram. Það eru bara þrír leikir búnir af mótinu. Við verðum að passa að fara ekki fram úr okkur, við höfum ekkert verið að flækja hlutina of mikið. Við höfum bara horft á einn leik í einu, og nú byrjum við að undirbúa okkur fyrir næsta leik sem er á fimmtudaginn gegn ÍR,“ sagði Stefán að lokum í samtali við mbl.is.