Blaðamenn sem vilja fá aðgang að Pentagon þurfa að skrifa undir skilmála sem kveða á um að þeir megi ekki afla sér upplýsinga úr óbirtum skjölum. Þeir munu því einungis geta unnið með gögn sem ráðuneytið samþykkir til birtingar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu innan ráðuneytisins.
Tveir ónafngreindir embættismenn staðfestu fyrir ætlanirnar í samtali við NPR. Blaðamenn sem brjóta reglurnar munu missa aðgang að ráðuneytinu, sem er eitt af stærstu í Bandaríkjunum.
Áður í ár greindi Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, frá því að blaðamönnum yrði settar skorður við frjálsri för um Pentagon. Þeir þyrftu að hafa fylgdarmann. Í færslu á samfélagsmiðlinum X í gær sagði Hegseth að blaðamenn ættu ekki að stjórna Pentagon og að þeir ættu að fylgja reglum eða fara heim til sín.
Mike Balsamo, forseti bandaríska blaðamannafélagsins, lýsti breytingunum sem aðför að óháðri blaðamennsku. Hann benti á að starf blaðamanna sé mikilvægt, sérstaklega þar sem þeir hafa veitt almenningi mikilvægar upplýsingar um hlut Bandaríkjanna í styrjöldum, hvernig fjármunum til varnarmála er varið og um ákvarðanir sem geti stefnt lífi Bandaríkjamanna í hættu.