Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var að vonum svekktur eftir 2:1 tap gegn Víkingi í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.
„Úrslit leiksins eru mjög döpur og leiðinleg niðurstaða því ég er ótrúlega stoltur af liðinu mínu. Ég er stoltur af því hvernig við stóðum í Víkingunum og niðurstaðan er bara ofboðslega súr. Mér fannst Víkingar skapa sér einhver ágætis færi í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik skoðuðu þeir ekkert. Þeir fá gefins vítaspyrnu og fá að taka hana aftur því að markmaðurinn hreyfði sig af línunni en á sama tíma stoppar Helgi í aðdragandanum, stendur nánast kyrr. En það er aldrei horft í það, það er alltaf bara verið að gera þetta erfiðara fyrir markmennina. Hann gefur þeim aðra vítaspyrnu, við komum til baka og jöfnum en eftir það fannst mér allt falla með þeim. Seinna markið sem þeir skora var heppnismark en Víkingarnir eru bara frábært lið, mér finnst þeir besta lið landsins,“ sagði Rúnar.
Þjálfarinn benti á að Fram hefði staðið sig vel í að stöðva sóknaraðgerðir Víkinga nánast allan leikinn. „Við sýndum það og sönnuðum að við eigum skilið að vera í efri hlutanum. Það er hins vegar ekki nóg að sýna það bara í dag, við þurfum að halda áfram að sýna það í síðustu fjórum leikjunum og gefa öllum þessum liðum leiki,“ útskýrði Rúnar.
Hann lýsti fyrra marki Víkinga sem rangur dómur og var mjög svekktur yfir að tapa leiknum vegna þess. „Það er ofboðslega súrt. Ég ætla ekki að kenna dómaranum um að hann sé að leika sér að þessu, hann sér þetta bara öðruvísi en við. Við erum að mínum mati með einn besta dómarann landsins á flautunni í dag en hann gugnar bara undan pressunni,“ sagði Rúnar.
Rúnar fékk að líta rauða spjaldið í leiknum eftir að Alex Freyr Elísson var dæmdur brotlegur. „Ég lét hann bara aðeins heyra það því hann dæmdi ekki á þetta fyrst, hann lét leikinn halda áfram. Svo dæmir hann, stoppar leikinn og allir fara að rífast yfir því hvað hafði gerst,“ útskýrði Rúnar.
Fyrir leik voru einhverjar áhyggjur um Framliðið og hvernig þeir myndu koma stemmdir inn í efri hlutann þar sem liðið hefur að litlu að keppa. „Þess vegna er ég svo stoltur af strákunum. Við ræddum þetta í vikunni, við fórum inn í úrslitakeppnina í fyrra í neðri hlutanum, unnum fyrsta leik og vorum sloppnir frá falli. Þannig viljum við ekki vera núna,“ sagði Rúnar.
Hann bætti því við að leikmannahópur Fram væri þunnskipaður en von væri á nokkrum mönnum til baka á næstunni. „Simon Tibbling var í leikbanni í kvöld og Róbert Hauksson fékk hugsanlega vægan heilahristing í síðasta leik, við gátum ekki tekið sénsinn á honum. Tryggvi Snær er að koma til baka en svo á ég ekki von á Vuk fyrr en kannski eftir næsta landsleikjahlé,“ sagði Rúnar að lokum.