Dansk stjórnvöld hafa tilkynnt um áform um að stofna sáttasjóð sem ætlað er að greiða grænlenskum konum bætur vegna lykkjuhneykslisins. Á árunum 1960 til 1992 var getnaðarvarnalykkju komið fyrir í legi þúsunda grænlenskra kvenna án þeirra vitneskju.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, greindi frá þessum hugmyndum í dag, tveimur dögum áður en hún fer í opinbera heimsókn til Grænlands. Þar mun hún taka þátt í athöfn þar sem dansk stjórnvöld biðjast afsökunar á þessu hneyksli.
Frederiksen hafði áður beðist afsökunar opinberlega í ágúst, og var hún þar með fyrst danskra ráðamanna til að gera slíkt.
Um 4.500 konur urðu fyrir því að lykkju var komið fyrir í legi þeirra án þeirra vitneskju. Margar þeirra urðu ófrjóar og flestar glímdu við líkamlegar eða andlegar afleiðingar þessara aðgerða. Um 150 konur hafa stefnt danska ríkinu og krafist bóta.
Frederiksen nefndi ekki hversu háar bætur Danir hyggjast greiða, en Jens Frederik Nielsen, formaður grænlensku heimastjórnarinnar, hefur áður sagt að Grænlendingar greiði konum um 300 þúsund danskar krónur vegna sambærilegra aðgerða sem voru gerðar eftir að Grænlendingar tóku við stjórn heilbrigðiskerfisins.