Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að afli sæbjúgna á átta veiðisvæðum við Ísland verði takmarkað við 2.168 tonn. Þetta er um 5% minnkun frá ráðgjöf síðasta árs. Ráðgjöfin er byggð á nýtingarstefnu sem miðar að því að tryggja hámarksafrakstur til lengri tíma, eins og fram kemur í frétt frá stofnuninni.
Í fréttinni kemur einnig fram að lífmassavísitala fyrir sæbjúgna hafi lækkað á veiðisvæðum við Vestfirði og á Norðursvæði við Austurland, en minni breytingar hafi verið á öðrum svæðum. Veiði hefur dregist verulega saman milli tveggja síðustu fiskveiðiára, þar sem tegundin er viðkvæm fyrir sveiflum á mörkuðum.
Samkvæmt ráðgjöfinni verður afli fiskveiðiársins 2025/2026 ekki meiri en 110 tonn á svæði A (Vestfirðir norðursvæði – Aðalvík), sem var 157 tonn á nýliðnu fiskveiðiári. Á svæði B, Vestfjörðum miðsvæði, verður afli 36 tonn (var 52 tonn), 40 tonn á svæði C, Vestfjörðum suðursvæði (óbreytt), 45 tonn á svæði D, utanverðum Breiðafirði (óbreytt), 416 tonn á svæði D, Faxaflóa (var 410 tonn), 208 tonn á svæði E, Austurlandi norðursvæði (var 245 tonn), 964 tonn á svæði G, Austurlandi miðsvæði (var 997 tonn) og 349 tonn á svæði H, Austurlandi suðursvæði (var 330 tonn).
Meiri upplýsingar um ráðgjöfina má finna hér.