Í dag hefur verið tilkynnt að þjóðvegur 1 milli Hafnar og Djúpavogs verði líklega lokaður fram á sunnudag. Gul viðvörun er í gildi um mestallt land vegna hvassviðris og rigningar.
Loftur Þór Jónsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austursvæði, sagði að viðgerðir á veginum við Jökulá í Lóni gætu hafist seinni partinn í dag. Hann er þó efins um að vegurinn verði opnaður fyrr en á sunnudag. „Ég efast um að það verði opnað fyrr en á sunnudaginn, vonandi þá,“ sagði Loftur.
Heimamenn á svæðinu hafa lýst yfir áhyggjum vegna nýja varnargarðsins sem beinir flóði að veginum, og telja að hann sé því ekki til mikils gagns. Loftur áréttaði þó að garðurinn virki eins og til er ætlast. „Þessi garður er leiðigarður og hann er til þess að beina vatninu beint á brúna, þannig að það komi ekki á hliðina og skemmi þá frekar undirstöðurnar,“ útskýrði Loftur.
Hann benti á að vegurinn og varnargarðurinn séu lægri á ákveðnum stöðum, sem sé gert til að tryggja að vegurinn rofni á þeim stað frekar en að brúin verði fyrir skemmdum.