Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, var að vonum svekktur með frammistöðu sinna manna eftir tap liðsins gegn Brentford í hádegisleik í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Leiknum lauk með 3:1 heimasigri Brentford þar sem Igor Thiago og Matthias Jensen skoruðu mörk heimamanna. Benjamin Sesko skoraði fyrir Manchester United áður en Bruno Fernandes klúðraði vítaspyrnu.
„Það er alltaf eins þegar þú tapar fótboltaleikjum hjá þessu félagi. Þetta er mjög sárt en við verðum að hugsa um næsta leik,“ sagði Amorim eftir leikinn. „Auðvitað vildum við vinna en við stýrðum ekki leiknum. Við spiluðum leik Brentford. Fyrsti bolti, annar bolti, föst leikatriði. Öll stóru augnablikin fóru gegn okkur. Það er erfitt að tapa en við verðum að hugsa um næsta leik,“ bætti hann við.
Amorim sagði einnig: „Fyrsta markið kom eftir langa sendingu fram. Við unnum í því í vikunni sem og föstum leikatriðum. Við vissum að löngu boltarnir kæmu og með einni snertingu fengu þeir færið. Við verðum hreinlega að gera betur.“