Tilkynningum um nauðganir hefur fjölgað um 8% á fyrstu sex mánuðum ársins, samkvæmt nýrri skýrslu frá ríkislögreglustjóra. Alls voru 104 nauðganir skráðar á tímabilinu, sem er hækkun miðað við meðalfjölda síðustu þriggja ára.
Á sama tíma hefur fjöldi tilkynninga um kynferðisbrot gegn börnum lækkað um 5% miðað við sama tímabil árum áður. Mesta hlutfallslega fækkunin var í tilkynningum um blygðunarsemisbrot, sem minnkaði um 31%. Þessi fækkun gæti verið vegna þess að slík mál eru nú flokkuð á annan hátt, eða að birtingarmynd þeirra hafi breyst, til dæmis í formi kynferðislegrar áreitni eða stafrænna kynferðisbrota, að því er segir í tilkynningunni.
Heildarfjöldi tilkynninga um kynferðisbrot, þar með talið nauðganir, var 291 á fyrstu sex mánuðum ársins 2025, sem er lítillega hærra en á sama tíma undanfarinna ára. Nánari upplýsingar um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu má finna á vef ofbeldisgáttar, 112.is, þar sem einnig er að finna úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um meðferð allra sakamála á heimasíðu ríkissaksóknara.