Ferðaþjónusta bænda hf. hefur nýverið lokið kaupum á öllu hlutafé Súlu Travel, fyrirtæki sem sérhæfir sig í skemmtiferðasiglingum fyrir Norwegian Cruise Line (NCL). Í tilkynningu frá Bændaferðum kemur fram að NCL hafi verið valið besta skipafélag í Evrópu í tíu ár í röð og í fimm ár í Karíbahafi, en félagið siglir um allan heim.
„Bæði fyrirtækin eru rótgróin og leggja áherslu á framúrskarandi þjónustu, gæði og fagmennsku. Kaupin á Súlu Travel munu verða mikil og góð viðbót við fjölmarga glæsilega ferða Bændaferða,“ sagði Sævar Skaptason, stjórnarformaður Ferðaþjónustu bænda, sem hefur leitt viðræður um kaupin. Ferðaþjónusta bænda hf. var stofnuð árið 1991 af íslenskum ferðaþjónustubændum, en forsaga fyrirtækisins nær aftur til ársins 1965 þegar erlendum ferðamönnum var fyrst boðið að dvelja á íslenskum sveitaheimilum gegn gjaldi.
„Við erum full tilhlökkunar að fá skemmtiferðasiglingar Súlu Travel með Norwegian Cruise Line inn í ferðaflóru Bændaferða. Bæði fyrirtækin leggja áherslu á persónulega þjónustu og ferðaupplifanir með frábærum fararstjórum,“ bætti Berglind Viktorsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda hf., við í viðtali.