Samkvæmt nýjustu skýrslu er áætlað að á Íslandi séu átta þúsund fullorðnir með einhverfu. Flestir þeirra hafa aldrei verið skimaðir eða fengið greiningu.
Skýrslan, sem starfshópur um málefni fullorðinna einhverfra skilaði til félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, greinir umfang og samsetningu þessa hóps, kortleggur þarfir þeirra fyrir þjónustu og leggur fram tillögur að úrbótum.
Í skýrslunni kemur fram að fullorðnir með einhverfu séu oft ósýnilegur hópur. Því eldri sem þeir eru, því ólíklegra er að þeir hafi hlotið greiningu, sem takmarkar aðgengi þeirra að viðeigandi úrræðum, stuðningi og réttindum.
Skýrslan greinir einnig frá áskorunum sem þessi hópur stendur frammi fyrir, þar á meðal skynrænu ofnæmi, erfiðleikum með stýrifærni, félagslegri úrvinnslu og aðlögun að breytingum. Þessar áskoranir eru oft flóknari þegar einhverfa kemur fram samhliða öðrum jaðarsetningum, svo sem fötlun, hinsegin sjálfsmynd, geðrænum áskorunum eða félagslegri einangrun.
Kortlagning hópsins sýnir að þjónusta við fullorðna einhverfa er til staðar en oft er hún ómarkviss, ósamræmd og aðeins aðgengileg fyrir hluta hópsins. Starfshópurinn bendir á mikilvægi þess að veita markvissa fræðslu og upplýsingamiðlun til fagfólks og almennings.
Í skýrslunni er einnig lagt til að komið verði á fót miðlægri þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir fullorðna með einhverfu.