Ný markaðsstofa, SAND, hefur nú hafið starfsemi sína. Stofnendur stofunnar eru Unnur Ársælsdóttir og Kristína Reynisdóttir.
Í fréttatilkynningu kemur fram að SAND stefnir að því að hugsa út fyrir kassann og bjóða upp á markaðsefni sem vekur athygli, hreyfir við fólki og leiðir til árangurs. „Við trúum því að besta leiðin til að ná athygli sé að hugsa öðruvísi og skapa efni sem fólk tekur eftir,“ segja stofnendurnir.
Markaðsstofan býður upp á fjölbreytta þjónustu, þar á meðal markaðsráðgjöf, efnisframleiðslu, almannatengsl, umsjón með samfélagsmiðlum, viðburðastjórnun og birtingaþjónustu. SAND leggur einnig sérstaka áherslu á skæruliðamarkaðssetningu og skapandi herferðir, sem skera sig úr í íslensku markaðsumhverfi.
SAND hefur þegar hafið samstarf við nokkur íslensk vörumerki, þar sem áhersla er lögð á að byggja upp langtímaverkefni og þróa hugmyndir sem ná til fólks í fjölbreyttu markaðsumhverfi. Kristína og Unnur voru áður starfsmenn Smitten, þar sem þeirra helstu verkefni fólu í sér að auka vöxt vörumerkisins og koma appinu á nýja markaði.
Kristína útskýrir að „bestu hugmyndirnar koma auðvitað þegar mikið er að gera hjá manni. En við byrjuðum SAND markaðsstofu þegar við vorum báðar með börn undir 1 árs. Hugmyndin að stofunni kom svolítið út frá því hvernig hægt væri að búa til markaðsherferðir og aðferðir sem sitja eftir í minni fólks í lengri tíma.“ Hún bætir við að þær vilji útfæra markaðssetningu á nýjan og áhrifaríkan hátt.