Leo XIV, nývígður páfi, blessaði listaverk íslensk-danska listamannsins Ólafs Eliassonar í Róm. Verkið, sem er 20 þúsund ára gamall ísklumpur úr Grænlandsjökli, var flutt til borgarinnar í tilefni ráðstefnunnar „Raising Hope for Climate Justice“, sem var sett á miðvikudag.
Páfi var viðstaddur þegar hann ávarpaði samkomuna og snerti verkið við blessun. „Hér er ekkert rými fyrir sinnuleysi eða uppgjöf,“ sagði Leo í ræðu sinni. „Guð mun spyrja okkur hvort við höfum ræktað og annast heiminn sem hann skapaði, öllum til góða og fyrir komandi kynslóðir, og hvort við höfum annast okkar bræður og systur. Hvert verður svar okkar?“
Á ráðstefnunni eru um 500 fulltrúar, leiðtogar þjóða, trúarsafnaða og ýmissa samtaka. Markmiðið er að fara yfir loftslagsmál á síðustu tíu árum, gera áætlanir um ný verkefni og útfæra þau. „Við erum ein fjölskylda, með einn föður. Við búum á sömu plánetunni og verðum að hugsa um hana saman,“ bætti Leo við. „Því ítreka ég ósk mína um samstöðu um mikilvæga vistfræði og um frið.“
Hinn fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger, var einnig viðstaddur og flutti ávarp. Hann hefur lengi beitt sér fyrir umhverfismálum og sagði að það væri „algjört kjaftæði“ að strangar umhverfislagasetningar hamli efnahag ríkja og svæða. „Í dag er Kalifornía með strangustu umhverfislagasetningu í Bandaríkjunum og við erum einnig á toppnum efnahagslega,“ sagði hann.
Ísklumpurinn, sem var fluttur beint frá Grænlandi, er um 20 þúsund ára gamall. „Elíasson lét flytja ísinn til Róm á þessum merkilegu tímamótum með aðstoð jarðfræðingsins Minik Rosing,“ segir í tilkynningu frá Ólafi og hans teymi. „Hann var sóttur úr firðinum Nuup Kangerlua eftir að hafa brotnað úr grænlensku jökulþekjunni og var við það að bráðna í hafinu.“
Ólafur og Minik byrjuðu að vinna að umhverfislistaverkefni árið 2014, sem ber yfirskriftina „Ice Watch“. Þeir hafa komið ísklumpum úr Grænlandsjökli fyrir áberandi stöðum í stórborgum eins og París, London og Kaupmannahöfn, þar sem þeir bráðna hægt og bítandi. „Þetta skýrir vísindaleg gögn fyrir okkur, svo við getum fundið fyrir þeim,“ sagði Ólafur um verkefnið.