Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Labbitúr, er tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti gestur Haraldar Þorleifssonar. Þeir ganga um götur Reykjavíkur og ræða opinskátt um fjölmargt, þar á meðal tónlist, fjölskyldulíf og drauma.
Ásgeir hefur verið að vinna að nýju efni síðustu mánaðina, en hann nefnir að hann sé með tvær plötur nærri því tilbúnar, eina á ensku og aðra á íslensku. „Ég hef svo oft gefið út á íslensku og þýtt yfir á ensku, en mig langaði núna að vera með mismunandi lög, svo þetta eru alveg ólíkar plötur,“ segir hann.
Haraldur rifjar upp fyrstu plötu Ásgeirs, Dýrð í dauðaþögn, og lýsir henni sem einni af síðustu íslensku plötunum sem seldist virkilega vel. Ásgeir tekur undir og talar um frelsið sem fylgdi því að vera óþekktur: „Já, þá vissi enginn hver ég var. Þá var maður ekkert með óþarfa pressu. Flæddi bara út þegar það kom út og ekkert verið að rembast eða pæla í hvað einhverjum öðrum finnst.“
Ásgeir útskýrir að þegar maður fer að vinna í bransanum, þurfi maður að byrja að temja sér það aftur. „Maður er alltaf að læra það aftur. Það er bara best að vita ekkert hvað maður er að gera,“ segir hann.
Ásgeir var kynntur fyrir tónlist í æsku af hálfbróður sínum Steina, Þorsteinn Einarsson, sem er tónlistarmaður í Hjálmum. „Hann kynnti mig fyrir tónlist og við spiluðum oft saman. Mig langaði að gera eins og hann, að semja mín eigin lög og standa upp á sviði og vera í hljómsveit,“ segir Ásgeir. Þrátt fyrir að hafa byrjað að semja lög aðeins átta ára gamall, hefur tónlistarferill hans verið erfiður, sérstaklega fjárhagslega.
Ásgeir segir að bransinn sé erfiður ef maður ætlar að fá eitthvað út úr túrum fjárhagslega, en hann hugsar um túrana meira sem kynningarferðir. „Þetta var nú alltaf bara svona að rembast við að reyna ná núlli á túrum í staðinn fyrir að græða eitthvað á þeim,“ útskýrir hann. Þó að hann tali stundum svart um fjárhagslegar aðstæður, viðurkennir hann að tekjur séu vissulega til staðar, sérstaklega innanlands. „Það eru alveg tekjur af því að spila live. Sérstaklega ef maður er að spila hérna heima. Þá er enginn kostnaður við neitt þannig lagað.“
Ásgeir hefur líka gagnrýnt þróun tónlistariðnaðarins, sérstaklega hvað varðar streymisveitur eins og Spotify. „Það er alls ekki „cool“ það sem þeir eru búnir að vera gera. Maður heyrir fréttir um hvað forstjóri Spotify er að græða mikið á ári. Kannski er þetta bara eitthvað „conspiracy“ dót en þeir eru að búa til feik artista,“ segir Ásgeir.
Hann deilir áhyggjum sínum um siðferðilega tengingu við fjárfestingar Spotify, sérstaklega þegar forstjórinn hefur fjárfest í vopnaframleiðslu. „Þá finnst mér vont að tónlistin mín sé að hjálpa við það að fjárfesta í vopnaframleiðslu. Maður fær oft löngunina til þess að taka tónlistina bara af,“ segir Ásgeir.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.