Bandaríska tónlistarkonan Dolly Parton hefur ákveðið að hætta við að koma fram í skemmtigarðinum Dollywood vegna heilsufarsvandamála. Hún, sem er 79 ára, átti að taka þátt í viðburði í garðinum í Pigeon Forge, Tennessee á miðvikudag, þar sem hún hefði tilkynnt um nýja upplifun í garðinum.
Í myndskilaboðum til aðdáenda sinna útskýrði Parton að hún væri að jafna sig eftir nýrnastein. „Ég veit að ég er hér og þið eruð þar að velta fyrir ykkur hvers vegna,“ sagði hún í myndbandi sem blaðamaðurinn Marcus Leshock deildi á samfélagsmiðlinum X. „Ég átti í smá vandamáli. Ég fékk nýrnastein. Það kom í ljós að það var sýking og læknirinn sagði: „Þú þarft ekki að vera að ferðast um núna, þú þarft nokkra daga til að ná bata.“ Svo hann lagði til að ég færi ekki til Dollywood í dag.“
Parton fullvissaði aðdáendur sína um að hún myndi fljótlega ná sér: „Hafið ekki áhyggjur af mér, ég verð allt í lagi,“ sagði hún. „Ég get þetta bara ekki í dag.“
Hálft ár er liðið síðan eiginmaður hennar, Carl Dean, lést í mars, 82 ára að aldri. Í maí ræddi Dolly opinskátt við Independent um heilsufarsbaráttu eiginmannsins, sem hún hafði haldið fyrir sig, og sagðist hún glaðbeitt að hann þjáðist ekki lengur. „En það bætir samt ekki upp fyrir missinn og einmanaleikann sem fylgir því,“ sagði hún.
Í júlí sagði Dolly að hún væri að taka sér pásu frá tónlist eftir andlát Deans og viðurkenndi í hlaðvarpi Khloé Kardashian, „Khloé in Wonder Land“: „Ég get þetta ekki núna því ég á svo margt annað að ég hef ekki efni á þeim munaði að verða tilfinningaþrungin núna,“ sagði Dolly, en hún bætir við að hún muni snúa aftur á tónlistarsviðið, þó svo að hún sé „bara að fresta því öllu saman“ í bili.