Dr. John Levin, 93 ára ástralskur læknir, hefur vakið mikla athygli vegna þess að hann og eiginkona hans, Dr. Yangying Lu, sem er 37 ára, hafa tjáð sig um óskir sínar um að eignast annað barn. Þau ræddu þetta í nýlegum þætti hlaðvarpsins Jase & Lauren.
Levin og Lu eiga nú þegar son, Gabby, sem fæddist í febrúar á síðasta ári, og þau vilja nú fá litla stelpu. „Við erum að hugsa um annað barn. Okkur langar að eignast litla stelpu,“ sagði Levin í hlaðvarpsþættinum.
Levin kynntist Lu þegar hann hóf nám í kínversku eftir að fyrri eiginkona hans, Veronica, lést árið 2013 eftir 57 ára hjónaband. Þau giftu sig í Las Vegas ári síðar. Levin átti þrjú börn með Veronicu, en sonur þeirra lést 65 ára að aldri í fyrra, en dætur hans eru 60 og 62 ára.
Hjónin náðu að verða foreldrar í fyrstu tilraun með tæknifrjóvgun. „Ég var mjög heppin,“ sagði Lu. Hún bætti við: „Við veltum fyrir okkur framtíðinni og mig langaði að eiga hluta af honum ef ég myndi missa hann.“
Levin hefur sett sér það markmið að vera til staðar fyrir son sinn eins lengi og mögulegt er. „Að sjálfsögðu vil ég vera viðstaddur 21 árs afmæli hans og bar mitzvah,“ segir hann.
Í nærri tvo áratugi hefur Levin veitt ráð um öldrunarvarnir til sjúklinga sinna. Hann lifir samkvæmt eigin ráðum, fer reglulega í ræktina, borðar aðeins eftir hádegi, helst grænmetisrétti, og neytir hvorki áfengis né tóbaks. Hann hefur einnig sprautað sig með vaxtarhormóni í um 30 ár.
Fjölmargir karlmenn, þar á meðal Hollywood-stjörnur eins og Robert De Niro, Al Pacino, Mick Jagger og Clint Eastwood, hafa eignast börn seint á lífsleiðinni. Samkvæmt Guinness World Records er Les Colley elsti maðurinn sem vitað er um að hafi orðið faðir; hann var að verða 93 ára þegar þriðja eiginkona hans fæddi barn árið 1992. Colley lést árið 1998. Ef hjónin Levin og Lu ná að verða ófrísk á ný gæti Dr. Levin slegið met Colleys og orðið elsti maður heims til að verða faðir.