Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur hafið samstarf við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið RetinaRisk um að veita reglubundna augnskimun fyrir fólk með sykursýki. Lausnin sem þróuð hefur verið með gervigreind er ætluð til að gera skimunina aðgengilegri og sparar umtalsverðan kostnað.
Samkvæmt upplýsingum frá HSN er áætlað að kostnaðurinn við að senda sjúklinga í augnskoðun til Reykjavíkur mun minnka um allt að 99%. Einnig munu hundruð ferðalaga á ári hverju sparast, sem auðveldar fólki með sykursýki að fá þjónustuna sem hluta af sinni reglubundnu eftirliti á nærheilsugæslu.
„Lausnin var fyrst tekin í notkun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) með góðum árangri, og nú er komið að íbúum á Norðurlandi að njóta sama ávinnings,“ segir Ægir Þór Steinarsson, forstjóri RetinaRisk, í fréttatilkynningu. „Samstarfið við HSN er stórt framfaraskref í að færa þjónustuna nær fólki. Við vitum að ferðalög til höfuðborgarinnar eru bæði tímafrekt og kostnaðarsamt fyrir sjúklinga, og með þessari lausn getum við sparað bæði einstaklingum og heilbrigðiskerfinu mikla fjármuni.“
Guðrún Dóra Clarke, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSN, bætir við: „Fyrst og fremst snýst þetta þó um að bæta lífsgæði fólks með sykursýki með því að gera skimunina aðgengilegri. Við erum stolt af því að fylgja í kjölfarið á þessari nýbreytni og innleiða lausn sem hefur þegar sannað sig á Suðurnesjum. Með því að nýta gervigreind tryggjum við að íbúar á Norðurlandi fái sama aðgengi að gæðaþjónustu og aðrir landsmenn, án þess að þurfa að leggja á sig langar og erfiðar ferðir. Þetta er mikil bót fyrir okkar fólk.“