Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, hefur lýst yfir áhyggjum vegna breytinga á heilbrigðisþjónustu í kjölfar uppsagna verktakasamninga við sérgreinalækna á Sjúkrahúsinu í bænum. Heilbrigðisráðuneytið hefur beðið forstjóra heilbrigðisstofnana um að draga úr samningum sem kunna að fela í sér gerviverktöku.
„Ég er nú bæði að heyra þetta frá kjörnum fulltrúum sem og fólki utan úr bæ sem hefur miklar áhyggjur af stöðunni og þjónustu við sig og sína ástvini. Þannig að þetta eru hlutir sem auðvitað munu koma frekar á borð inn til okkar,“ sagði Ásthildur Sturludóttir.
Uppsagnirnar náðu aðeins yfir svokallaða ferliverkasamninga við lækna á Sjúkrahúsinu en ekki hefur verið gerð breyting á verktakavinnu fyrir heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni. Slík vinna er talin mjög mikilvæg í dreifbýli og engar upplýsingar hafa komið fram um að slíkir samningar séu á undanhaldi. Ráðuneytið hefur þó lýst því yfir að það vilji draga úr verktöku í heilbrigðisgeiranum í heild.
Ríkið er í rassíu gegn öllum samningum á opinberum stofnunum sem teljast að fela í sér gerviverktöku. Skýrsla ríkisendurskoðunar frá 2018 sýndi að vísbendingar væru um gerviverktöku lækna á landsbyggðinni. Árið 2024 sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið dreifibréf á alla forstjóra til að reyna að uppræta þessa gerviverktöku.
Forstjórar Sjúkrahúsins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Austurlands hafa komist að sömu niðurstöðu um að segja upp ferliverkasamningunum fyrir áramót. Hvað tekur við í staðinn er enn óljóst, en SAk er í viðræðum við sína lækna og segist leita allra leiða til að halda í sitt fagfólk.
Uppsagnirnar þýða einnig að kostnaðarsamt gæti verið fyrir ríkið að greiða læknum há laun, en einnig dýrt að greiða ferðalög fólks til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. „Það eru þúsundir einstaklinga sem hafa ekki þurft að ferðast um langan veg til að fá þá þjónustu sem þeir hafa þurft á að halda, eins og til dæmis krabbameinsmeðferðir. Það er algert lykilatriðið að stofnunin og læknarnir nái samkomulagi,“ sagði Ásthildur Sturludóttir.
Á þinginu í dag var Alma Möller, heilbrigðisráðherra, spurð um samningana í óundirbúnum fyrirspurnatíma. „Þessir samningar sem kallaðir eru ferliverkasamningar, þeir standast ekki lög. Og þeir geta haft afleiðingar fyrir bæði þá sem veita þjónustuna og þá sem kaupa hana,“ sagði Alma. Hún benti á að breytingin verði gerð í áföngum og leitað verði að fjölbreyttum lausnum til að koma í veg fyrir þjónusturof við sjúklinga.