Afturelding tryggði sér sigur á FH með tveimur mörkum í 9. umferð úrvalsdeildar karla í handbolta í kvöld. Stefán Rúnar Árnason, þjálfari Aftureldingar, lýsti leiknum sem sínum besta varnarleik í vetur.
„Í seinni hálfleik gefum við tóninn með vörninni. Ég held að við höfum aðeins fengið á okkur fjögur mörk fyrstu 18 mínútur seinni hálfleiksins. Við snúum leiknum við og náum tökum á honum. Við fengum mörg tækifæri til að tryggja okkur sigurinn með því að komast fimm mörkum yfir, en nýttum það ekki,“ sagði Stefán. „FH náði að minnka muninn í lokin, en við héldum forskotinu þökk sé góðri vörn og frábærri markvörslu í lokin.“
Einar Baldvin, markvörður Aftureldingar, átti ekki góðan fyrri hálfleik, en breytti því í seinni hálfleik. „Einar var mjög dýrmætur fyrir okkur í lok leiksins. Það er eðlilegt að þurfa smá tíma til að komast í gang eftir að hafa ekki spilað í 6-7 vikur. Planið var ekki að hann myndi spila í 60 mínútur í dag, en Sigurjón datt út rétt fyrir leik. Einar þurfti aðeins að smyrja sig, en þegar hann var orðinn heitur varði hann mikilvæga bolta á tímabilum þar sem FH gat komist almennilega inn í leikinn,“ sagði Stefán um markvörðinn.
Þegar FH minnkaði muninn niður í eitt mark rétt rúmlega mínútu fyrir leikslok, var tilfinning Stefáns sú að Afturelding myndi standast áhlaup FH. „Mér leið bara vel í sannleika sagt. Ég var alveg viss um að við myndum stoppa þá. FH átti mjög erfitt með að komast í færi í seinni hálfleik, þannig að ég var nokkuð viss um að við myndum standast þetta áhlaup frá þeim.“
Sigurinn tryggir Aftureldingu áfram á toppi deildarinnar. „Það er mjög sterkt að vinna FH og gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í þessari vegferð. Við vorum ánægðir með að fara inn í landsleikjahlé á toppnum, en við ætluðum einnig að nýta fríið vel til að byggja ofan á. Við erum alls ekki saddir eða sáttir því það er hellingur eftir. Ég sá að menn svöruðu þessu kalli, því það er sennilega ein besta æfing sem við höfum tekið á tímabilinu og ljóst að menn voru vel stemmdir. Það gaf tóninn,“ bætti Stefán við.
Næsti leikur Aftureldingar verður gegn Þór á Akureyri, þar sem Þórsarar hafa átt erfitt að stríða stórum liðum. „Þeir eru erfiðir, sérstaklega fyrir norðan. Við þurfum heldur betur að núllstilla okkur fyrir þann leik. Það þarf góðan leik fyrir norðan til að ná einhverju á móti Þór í höllinni á Akureyri, og ljóst að það verður erfitt verkefni,“ sagði Stefán Rúnar að lokum.