Aron Pálmarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í handbolta, hefur tilkynnt um að hann leggi skóna á hilluna eftir afar farsælan feril. Aron, sem er 34 ára, var landsmeistari þrettán sinnum í Þýskalandi, Ungverjalandi, Spáni og Íslandi, og lék 184 A-landsleiki þar sem hann skoraði 694 mörk.
Í samtali við Dagmál útskýrði Aron að hann hefði rætt við stórvin sinn, Guðjón Val Sigurðsson, áður en hann tók þessa ákvörðun. „Hann sagði við mig að þetta yrði erfitt í janúar og svo í maí þegar úrslitaleikirnir byrja,“ sagði Aron. „Ég held að það sé alveg rétt hjá honum. Auðvitað fær maður kitl, sérstaklega í janúar, því þetta er einstök tilfinning að fara á stórmót með landsliðinu, þótt þetta sé á hverju ári.“
Aron viðurkenndi að þó hann væri að hætta sem leikmaður, myndi hann fylgjast vel með næstu stórmótum landsliðsins. „Ég mun klárlega vera límdur við skjáinn og í staðinn fyrir að vera fyrirliði inni á vellinum, þá verð ég fyrirliði heima í stofu, alveg kolvitlaus,“ bætti hann við.
Þegar spurt var hvort hann myndi sjá sig í sérfræðingahlutverki í framtíðinni og hvort hann gæti orðið næsti Logi Geirsson, svaraði Aron: „Það er enginn sem getur orðið næsti Logi Geirsson, það er einstakur maður. Ég hef ekkert pælt í því og það er langt í mót, en ef að kallið kemur, þarf maður að vega og meta það. En ég mun klárlega horfa á þetta.“
Heildarviðtalið við Aron má nálgast með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan.