Arne Slot, þjálfari Liverpool, staðfesti að franski framherjinn Hugo Ekitike hafi ekki verið sektaður fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í leiknum gegn Southampton á þriðjudaginn. Ekitike reif sig úr treyjunni þegar hann skoraði sigurmarkið skömmu fyrir leikslok, en fékk þá sitt annað gula spjald í leiknum og var rekinn af velli.
Þess vegna verður Ekitike ekki með Liverpool í leiknum gegn Crystal Palace í úrvalsdeildinni á morgun. Slot útskýrði á fréttamannafundi í dag að umrædd „refsing“ sem rætt hafði verið um væri ekki í formi sektar. „Það þýðir að ég ræddi við hann. Ef „refsing“ þýðir sekt, þá er svarið að hann fékk enga slíka. Hann áttaði sig strax á því að þetta var ekki sniðugt hjá honum og hann bað liðsfélaga sína strax afsökunar,“ sagði Slot.
Hann benti á að Ekitike sé ungur leikmaður og að mistök gerist hjá leikmönnum á öllum aldri. „Hann gerði mistök og það gerum við allir. Í þessu félagi mega menn gera mistök án þess að þeir séu umsvifalaust sektaðir,“ bætti Slot við.
Slot lofaði einnig Ekitike, sem hann sagði vera „frábæra manneskju“. „Ef þið biðjið starfsfólkið okkar að nefna þrjá hjartahlýjustu leikmennina, þá er hann örugglega í þeim hópi hjá öllum. Þetta var ekki klókt hjá honum, við sluppum með það á þriðjudaginn en það gæti komið okkur verr í leiknum á morgun. Það jákvæða er að Federico Chiesa er á góðri leið og nú á hann möguleika á að spila eitthvað fyrst Hugo er ekki til staðar,“ sagði Arne Slot að lokum.