Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur enn trú á Liverpool þrátt fyrir að byrjun tímabilsins hafi verið erfið fyrir liðið. Liverpool situr í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stigum, sem er sjö stigum minna en toppliðið Arsenal, eftir að hafa leikið níu umferðir.
Um helgina tapaði Liverpool sínum fjórða deildarleik í röð gegn Brentford með 3:2, en Guardiola telur að liðið geti enn blandað sér í toppbaráttuna í deildinni. „Liverpool hefur tapað síðustu leikjum sínum, en þeir hefðu hæglega getað unnið eitthvað af þessum leikjum,“ sagði Guardiola í samtali við fjölmiðla eftir tap liðsins gegn Aston Villa.
Hann bætti við: „Þeir fengu svo sannarlega færin gegn Manchester United og voru óheppnir að skora ekki. Þeir hafa hikstað, en þeir eru enn líklegir til afreka í ensku úrvalsdeildinni. Þegar þú ert að berjast á toppnum getur alltaf gerst að þú tapir stigum inn á milli, þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að nýta okkur það þegar liðin sem við viljum bera okkur saman við tapa stigum.“