Gunnlaugur Árni Sveinsson, íslenski landsliðskylfingurinn, sigraði á Fallen Oak Collegiate Invitational mótinu í bandarísku háskólagolfi í kvöld. Þetta er annar sigur Gunnlaugs undir merkjum LSU, en ungstirnið hefur hafið tímabilið af miklum krafti.
Sex af tuttugu sterkustu skólum landsins tóku þátt og margir af bestu áhugakylfingum heims voru meðal keppenda. Fallen Oak mótið fór fram á samnefndum velli í Mississippi dagana 18.-20. október. Keppnin fór fram í 54 holu höggleik í bæði einstaklings- og liðakeppni, þar sem fjórtán skólar sendu lið í mótið og alls voru 81 keppandi.
Gunnlaugur lék hringina þrjá á 66-70-67 höggum og var þrettán undir pari í heildina. Á fyrsta keppnisdegi lék hann á 66 höggum, sem var sex undir pari og þar með besti hringur dagsins. Hann fékk sjö fugla, einn skolla og var kallaður „hinn íslenski Tiger“ á samfélagsmiðlum skólans, þar sem deilt er um hvort vísað sé til lukkudýrs skólans, sem er tígrisdýr, eða sjálfs Tiger Woods.
Í öðrum hringnum lék Gunnlaugur á tveimur höggum undir pari, fékk fjóra fugla og tvo skolla, sem leiddi til þess að hann var tveimur höggum á eftir liðsfélaga sínum, Matthew Dodd-Berry, fyrir lokahringinn. Í dag lék hann frábært golf, fékk fimm fugla og tapaði ekki höggi. Mikil spenna var á lokasprettinum, en William Jennings úr Alabama háskólanum var jafn Gunnlaugi fyrir lokaholuna. Skolli hjá William á átjándu holu gaf Gunnlaugi sigurinn, sem varð ekki sætari.
Foreldrar Gunnlaugs voru á vellinum ásamt Andrési Davíðssyni, þjálfara Gunnlaugs hjá GKG. Smelltu hér til að sjá úrslit mótsins. Skóli Gunnlaugs, LSU, varð jafn í efsta sæti liðakeppninnar á 32 höggum undir pari. Þar leika sex kylfingar fyrir hvern skóla og gilda fjögur bestu skor liðsins á hverjum degi. LSU var í yfirburðastöðu fyrir lokahringinn, en tapaði ellefu höggum til Alabama háskólans á lokahringnum, sem leiddi til þess að liðin deildu því gullinu.
Timabilið fer frábærlega af stað hjá Gunnlaugi Árni, en hann hefur verið í efstu ellefu sætunum í öllum fjórum háskólamótum tímabilsins. Hann situr í 13. sæti á heimslista áhugamanna, en með þessum árangri er líklegt að hann taki stökk upp listann á næstu dögum. Hér má sjá úrslit ú́r mótum tímabilsins hjá Gunnlaugi.