Þegar fimm leikir eru eftir á tímabilinu í sænsku úrvalsdeild karla í fótbolta beinast öll augu að Mjällby, liði sem spilar heimaleiki sína í tæplega 1000 manna sjávarþorpi, Hällevik. Mjällby hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu og er með ellefu stiga forskot á toppi deildarinnar. Það virðist ljóst að félagið mun vinna sögulegan sænska titil.
Líðið var stofnað árið 1939 og á þeim 86 árum hefur það aðeins spilað 13 tímabil í sænsku úrvalsdeildinni. Árið 1979 komst liðið upp í efstu deild og spilaði þar fimm tímabil áður en það féll aftur. Besti árangur liðsins fyrir þessa leiktíð var fimmta sætið sem liðið náði á síðasta ári og árið 2020, þegar heimsfaraldur setti strik í deildarkeppnina.
Árið 2015 breyttist allt hjá liðinu sem hafði þá verið í miklum fjárhagsvandræðum og nálægt því að falla niður í fjórðu deild, sem er áhugamannadeild. Nýr eigandi rétti skútuna af og liðið kom sér á endanum aftur upp í efstu deild eftir fimm ára fjarveru með því að vinna 1. deildina árið 2019.
Eftir nokkur bras á fyrstu árum sínum aftur í efstu deild var leitað til Anders Torstensson, fyrrum leikmanns Mjällby á níunda áratugnum, sem hafði áður verið þjálfari liðsins. Torstensson starfaði þá sem yfirkennari í grenndinni og bjargaði liðinu frá fallbaráttu þegar hann tók tímabundið við liðinu árið 2021. Árið 2023 hafði hann svo sagt skilið við kennaraferilinn í bili og snúið sér alfarið að þjálfun liðsins.
Anders Torstensson og hans fólk í þjálfarateyminu hefur komið Mjällby á toppinn. Aðstoðarþjálfari liðsins, Karl Marius Aksum, hefur hlotið viðurnefnið „doktorinn“ og er með doktorsgráðu í sjónskynjun í afreksfótbolta. Bæði leikmenn, blaðamenn og stuðningsfólk þakka honum fyrir þær breytingar sem hafa átt sér stað, sérstaklega sóknarlega. Aksum gekk til liðs við þjálfarateymið fyrir síðasta tímabil.
„Áður þá treystum við á langa bolta og baráttu. Við lögðumst lágt og vörðum teyginn, en síðan Karl kom til okkar höfum við reynt að breyta þessu. Og við höfum reynt að trú á breytingarnar. Það er gaman að spila fótbolta þessa dagana,“ sagði fyrirliðinn Jesper Gustavsson í viðtali við SVT eftir sigur á Brommapojkarna í síðustu umferð. Sóknarleikurinn hefur sannarlega verið leiftrandi. Mjällby hefur skorað 45 mörk á tímabilinu, næst flest, og er með bestu markatölu deildarinnar eftir að hafa aðeins fengið á sig 17 mörk, sex mörkum minna en liðið sem kemur þar á eftir.
Líðið er ungt, með um 24 ára meðalaldur, og er að stærstum hluta byggt á sænskum leikmönnum. Þó spila með liðinu leikmenn frá hinum Norðurlöndum, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, auk Kamerún, Pakistan, Gambíu og Nígeríu.
Samheldnin hefur skilað liðinu langt en hluti leikmanna býr í sama húsi og er í góðu sambandi við aðdáendur, kannski skiljanlega þegar samfélagið er lítið. Heimavöllur Mjällby, Strandvallen Stadium, er staðsettur í litla sjávarþorpinu Hällevik á suðausturstönd Svíþjóðar. Völlurinn stendur undir nafni þar sem hann kúrir við Eystrasaltið, 15 mínútum frá Sölvesborg, stærsta bæjarfélaginu í nágrenninu, þar sem um 8000 íbúar búa.
„Þegar andstæðingar mæta í leik gegn okkur á rútum keyra þeir og keyra, fram hjá sveitabæjum, fram hjá fiskibryggjum. Þeir keyra og keyra og þegar þeir geta ekki keyrt lengra, sjá þeir völlinn okkar,“ segir íþróttastjóri félagsins, Hasse Larsson, í viðtali við The Guardian.
Mjällby hefur nú þegar tryggt sér sæti í undankeppni Sambandsdeildarinnar, að minnsta kosti, á næsta ári því liðið mun aldrei enda neðar en í þriðja sæti. Þetta verður í fyrsta skipti sem félagið tekur þátt í Evrópu keppni.
Það virðist einnig fátt geta komið í veg fyrir að liðið verði sænskur meistari og hampi þar með stórum titli í fyrsta skipti í sögu félagsins. Ekki nóg með það, heldur gæti liðið einnig orðið það stigahæsta í sögu deildarinnar ef fram heldur sem horfir.
Mjällby hefur aðeins tapað einum leik á öllu tímabilinu, það var í 8. umferð á útivelli gegn Elfsborg, sem er einmitt næsti andstæðingur. Hjá Elfsborg spila Íslendingarnir Ari Sigurpálsson og Július Magnússon og það er spurning hvort þeim tekst að stöðva sigurgöngu Mjällby þegar liðin mætast á morgun, laugardaginn 4. október.
Ef Mjällby vinnur á morgun er liðið komið í afar góðu ástandi en titillinn verður þó ekki tryggður nema keppinautar þeirra, Hammarby, tapi stigum gegn liði Gautaborgar á sunnudag. Fari svo, að Mjällby vinni og Hammarby tapi eða geri jafntefli, verður forysta Mjällby orðin að minnsta kosti 13 stig og aðeins 12 stig eftir í pottinum.
Leikina fram undan og nánari stöðu í sænsku úrvalsdeildinni má sjá hér.