Heiður Anna Helgadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta. Hún mun formlega taka við starfinu í lok nóvember og kemur í staðinn fyrir Guðrúnu Björnsdóttur, sem ákveðið hefur að láta af störfum eftir 26 ára starf.
Heiður Anna hefur starfað hjá Félagsstofnun stúdenta í rúm átta ár, þar sem hún síðast starfaði sem þjónustustjóri Studentagarða. Hún situr einnig í stjórn NSBO, sem er samstarf norrænna studentagarða.
Heiður Anna býr yfir víðtækri reynslu á sviði þjónustuþróunar og hefur djúpa þekkingu á starfsemi Félagsstofnunar stúdenta, málefnum stúdenta og háskólasamfélaginu. Hún er að ljúka MBA námi með áherslu á stefnumótun og sjálfbærni við Porto Business School, að því er fram kemur í tilkynningu.
Í tilkynningunni sagði Heiður Anna: „Ég er ótrúlega þakklát fyrir traustið sem stjórn Félagsstofnunar stúdenta hefur sýnt mér og er spennt fyrir komandi árum. Ég hef lifað og hrærst í háskólasamfélaginu síðastliðin 14 ár; sem starfsmaður Félagsstofnunar stúdenta, íbúi Studentagarða, nemandi og fulltrúi í hagsmunabaráttu stúdenta. Hjarta mitt slær í takt við stefnu og gildi Félagsstofnunar stúdenta. Ég hef trú á því að með áframhaldandi öflugri forystu geti Félagsstofnun stúdenta haldið áfram að vaxa og dafna. Þá finnst mér brýnt að tilgangur Félagsstofnunar stúdenta, að auka lífsgæði stúdenta, sé alltaf hafður að leiðarljósi og sé lifandi í hugum stúdenta og starfsfólks. Ég hlakka þess vegna mikið til að leggja mitt af mörkum til að leiða Félagsstofnun stúdenta inn í næsta kafla með skýra stefnu, stöðugleika og mannlega nálgun að leiðarljósi.“