Áströlsk lögregluyfirvöld hafa hafið rannsókn á andláti áttræðrar konu sem virðist hafa gleymst á Lizard eyju við Kóralrifið mikla um liðna helgi. Konan var á eigin vegum í siglingu með Coral Expedition þegar skipið kom við á fyrrnefndri eyju.
Á Lizard eyju búa innan við hundrað manns, og hópur farþega gekk á hæsta tind eyjunnar, sem heitir Cook“s Look. Hópurinn skilaði sér til baka síðar sama dag, en skipstjórnendur og forsvarsmenn ferðarinnar áttuðu sig ekki á því að konan hafði ekki komið aftur í skipið.
Óvíst er hvernig málin fóru úr skorðum, en í áströlskum fjölmiðlum kemur fram að annað hvort hafi konan villst eða dottið. Hvarf hennar kom ekki í ljós fyrr en daginn eftir, og hún fannst látin á eyjunni á sunnudaginn.
Lögreglan telur ekki að neitt saknæmt hafi átt sér stað í tengslum við andlát konunnar. Skipið lagði af stað með 120 farþega þann 17. október síðastliðinn, og um var að ræða 60 nátta siglingu umhverfis Ástralíu.