Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um áframhaldandi síbrotagæslu mannsins sem hefur játað að hafa stolið hraðbanka úr útibúi Íslandsbanka við Þverholt í Mosfellsbæ í síðasta mánuði.
Þetta staðfestir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Úrskurður héraðsdómsins hefur þegar verið kærður til Landsréttar.
Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, var undir lok síðasta mánaðar úrskurðaður í fjögurra vikna síbrotagæslu sem rann út í dag. Þessi sami maður hefur einnig játað aðild að svokölluðu Hamraborgarmáli og bar vitni í gegnum fjarfundabúnað í Gufunesmálinu. Þar sagði hann að honum hefði verið boðið að taka þátt í umræddu máli en hann hafi afþakkað boðið.
Rannsóknin á hraðbankaráninu er langt komin. Í viðtali við mbl.is í gær sagði Grétar Stefánsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að málið teljist svo til upplýst. Hraðbankinn, sem stolið var úr útibúi Íslandsbanka, fannst við hitaveitutankana á Hólsheiði, en í honum voru 22 milljónir króna. Maðurinn notaði gröfu við þjófnaðinn, sem tekin var í óleyfi á byggingarsvæði á Blikastaðalandi.