Krónan og viðskiptavinir hennar hafa safnað alls 12 milljónum króna í neyðarsöfnun fyrir börn á Gaza í samstarfi við UNICEF á Íslandi. Viðskiptavinir voru hvattir til að bæta 500 krónur eða meira við innkaup sín, og Krónan jafnaði hvert framlag, krónu á móti krónu. Allt fjármagnið mun renna óskert til neyðaraðstoðar á Gaza, þar sem UNICEF vinnur að því að veita íbúum landsins aðstoð, með sérstakri áherslu á börn.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, sagði að framlag viðskiptavina sé afar mikilvægt vegna mikillar neyðar á svæðinu. „Fram undan er stærsta mannúðaraðgerð sögunnar þar sem UNICEF leggur nótt við nýjan dag að tryggja börnum svæðisins langþráða næringu, hreint vatn, lyf, hlý föt og skjól. Þá biðjum við um að koma skólagöngu þeirra aftur af stað eftir tveggja ára hlé og veita sálfélagslegan stuðning. Þetta kostar mikið fjármagnið og því ómetanlegt að njóta þess vogarafls sem Krónan og viðskiptavinir hennar hafa lagt til verkefnisins. Saman erum við sterkari,“ sagði Birna.
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, sagði að viðtökurnar frá viðskiptavinum hefðu farið fram úr þeirra bjartustu vonum. „Viðbrögðin sýna hversu miklu máli samstaða skiptir þegar á reynir. Á aðeins tíu dögum safnuðust 12 milljónir króna, sem segir sitt um samhug og viljann til að láta gott af sér leiða. Við erum gífurlega þakklát þeim viðskiptavinum sem tóku þátt í þessu með okkur,“ sagði Guðrún.