Konan sem starfaði á leikskóla í Ástralíu hefur verið sakfelld fyrir alvarlega líkamsárás gegn fjóra ára dreng. Vegna áverkanna þurfti að líma höfuð drengsins saman.
Konan, 24 ára gömul, var handtekin þann 16. september síðastliðinn í Bathurst í Nýju Suður-Wales. Hún var ákærð fyrir líkamsárás á drenginn í leikskólanum þar sem hún starfaði.
Að sögn lögreglunnar þvingaði konan drenginn til að leggjast í rúm í miðdagshvíldinni. Við þetta rakst höfuðið á gaflinn á rúminu og myndaðist tveggja sentimetra sár.
„Barnið var að hreyfa sig og augljóslega að reyna að streitast við tilraunum konunnar til að koma barninu í rúmið,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar, eins og fram kemur á vef fréttastofunnar ABC.
Konan greip þá drenginn í hendurnar og þvingaði hann niður í rúmið. Höfuð hans rakst á plastgafl rúmsins. Þrátt fyrir þetta hélt konan drengnum niðri í rúminu í 53 sekúndur. Drengurinn sparkaði út í loftið og grét af sársauka.
Að sögn lögreglunnar var mikil blæðing úr höfði drengsins, en konan brást ekki við því strax. Loks lét hún annan starfsmann vita af þessu, en þá hafði blóðið lekið um allt rúmið. Engu að síður var ekki farið með hann til aðhlynningar fyrr en faðir hans kom á leikskólann til að sækja hann.
Kemur fram að það hafi þurft að líma saman höfuðið á barninu til þess að stoppa blæðinguna.
Konan var samstundis sagt upp störfum á leikskólanum. Um mánuði síðar var hún handtekin á heimili sínu og ákærð fyrir verknaðinn, eins og áður segir. Að sögn lögreglunnar hafði konan stefnt öryggi og velferð barnsins í hættu.
Í áströlskum miðlum kemur fram að konan hafi verið sakfelld fyrir líkamsárásina. Hún játaði gáleysislega hegðun sína skýlaust. Hins vegar verður refsing hennar ákveðin á næstu dögum.