Palli Banine hefur snúið aftur til tónlistar eftir langt hlé. Hann sendi nýverið frá sér lagið „I“m asking you God“ og vonast til að gefa út breiðskífu síðar á vetri. Palli lýsir músík sinni sem rokk og ról, þar sem textarnir fjalla um klassísk mannleg gildi.
Listagyðjan hefur haldið Palla Banine við efnið, þar sem hann vinnur jafnt í myndlist og tónlist. Palli, sem varð þekktur á tíunda áratugnum með hljómsveitinni Bubbleflies og fyrir hlutverk sitt í költkvikmyndinni Blossa, er nú á ný á sviðinu með nýrri smáskífu og myndbandi. Hann vinnur undir hljómsveitarnafninu Horde, en breiðskífan, sem ber nafnið „Taking reality by surprise“, á að koma út á næstunni. Palli hitti blaðamann í miðbænum í vikunni og ræddi um listina sína. Hann nam myndlist á Íslandi og í Brussel og var um tíma meðlimur í Klink&Bank.
Palli vinnur í ýmsum miðlum, þar á meðal innsetningum, höggmyndum, gjörningum og teikningum, og verk hans hafa verið sýnd víða um heim. Í dag einbeitir hann sér að teikningum, málverki, netmiðlum og tónlist. „Venjulega hef ég tekið nokkur ár í myndlist þar til tónlistin fer að kalla, og fer svo aftur yfir í myndlist. Ég virðist rokka þarna á milli,“ segir Palli. „En fyrir þetta verkefni komst ég að því að mesta vinnan felst í að búa tónlistinni sjónrænan búning á netinu,“ útskýrir hann.
Palli útskýrir að tónlistin hafi bankað upp á á ný og hann sé kominn langt út fyrir þægindarammann. Lagið „I“m asking you God“ er nú komið í streymi og myndbandið má finna á YouTube og Bandcamp. „Þægindaramminn er þúsundir kílómetra í burtu. Ég er alltaf á mörkum getu minnar. Það er stressandi staður að vera á, en ég fer alltaf þangað aftur,“ segir hann.
Palli hefur ekki haldið tónleika í mörg ár. „Eftir að tónlistin hefur snert þig einu sinni, þá lætur hún þig aldrei í friði. Eftir að ég flutti heim með þessa hálfkláruðu plötu ákvað ég að klára hana, en það varð að miklu stærra verkefni en ég hélt,“ bætir hann við. Á næstu dögum mun hann gefa út tvær smáskífur og vonast til að gefa út tvo myndbönd í viðbót. „Platan byrjar á einum stað og endar á allt öðrum,“ segir hann. „Textarnir eru um alheiminn, ástina, dauðann og lífið, þetta klassíska, en ég virðist vera frekar epískur í textum mínum og fjalla gjarnan um sammannlegan sannleika.“
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er ítarlegt viðtal við Palla Banine um helgina.