Atök brutust út milli mótmælenda og lögreglu í Tbilisi, höfuðborg Georgíu, þegar mótmælendur reyndu að ryðjast inn í forsetahöllina. Öryggissveitir lögreglu notuðu vatnsbyssur og piparúða til að dreifa mótmælendum.
Mikil ólga hefur verið í landinu eftir að stjórnarflokkurinn Georgíski draumurinn vann þingkosningar í fyrra. Rússar hafa verið sakaðir um afskipti af þeim kosningum, og stjórnarflokkurinn er sagður vilja auka tengslin við Rússland.
Í dag voru sveitarstjórnarkosningar í Georgíu, en stjórnarandstaðan sniðgekk þær að mestu leyti. Tugir þúsunda mótmælenda söfnuðust saman í miðborginni, þar sem þeir báru georgíska fána og fána Evrópusambandsins.
Paata Burchuladze, einn af skipuleggjendum mótmælanna og óperusöngvari, las yfirlýsingu þar sem þess var krafist að innanríkisráðuneyti landsins framfylgi vilja fólksins og handtaki sex stjórnendur Georgíska draumsins.
Mótmælendur gengu síðan að forsetahöllinni og reyndu að komast inn. Lögreglan sprautaði piparúða í átt að mótmælendum. Stjórnvöld hafa undanfarið gripið til aðgerða gegn pólitískum andstæðingum, aðgerðarsinnum og sjálfstæðum fjölmiðlum.
Flestir leiðtogar stjórnarandstöðunnar, sem vilja auka tengsl við Evrópu og Vesturlönd, hafa verið handteknir og eru í fangelsi.