Evrópusambandið er að vinna að því að nýta frystar eignir í eigu Rússlands til að fjármagna lánaferli upp á 170 milljarða evra til Úkraínu.
Í umfjöllun Financial Times kemur fram að þessi aðgerð gæti haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu ríkissjóðs Úkraínu, en einnig að hún gæti leitt til hörðra viðbragða frá stjórnvöldum í Rússlandi.
Úkraína hefur lengi kallað eftir því að þessi leið verði farin, en innan Evrópusambandsins eru skiptar skoðanir um málið. Samkvæmt einni sviðsmynd yrðu frystir fjármunir rússneska seðlabankans, sem eru í vörslu hjá Euroclear, nýttir til að kaupa vaxtalaus evrubreif.
Andvirðið af sölu þeirra yrði síðan millifært til Úkraínu í skrefum. Um 170 milljarðar af 194 milljörðum evra eignum í eigu Rússlands hjá Euroclear hafa fallið á gjalddaga og teljast nú til handbærs fjár í bókum Euroclear, samkvæmt heimildum Financial Times.
Önnur leið væri að stofna sérstakt eignarhaldsfélag til að halda utan um fjármögnunina, sem gæfi þjóðum utan Evrópusambandsins tækifæri til að taka þátt í aðstoðinni.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur stutt þessa hugmynd um lán (e. reparations loans) og sagði að Evrópusambandið þyrfti aðeins að endurgreiða þau ef Rússland samþykkir að bæta Úkraínu tjónið af innrás Rússa.
Í stað þess að bíða eftir því að hernaðaraðgerðum linni, gæti Evrópusambandið nýtt þessa aðgerð til að „hjálpa Úkraínu strax í dag“. Í umfjölluninni kemur einnig fram að bandarísk stjórnvöld hafi hvatt vinaþjóðir sínar til að nýta frystar eignir í eigu Rússlands til að styðja Úkraínu.