Hamas hefur lýst því yfir að samtökin séu reiðubúin að frelsa gíslana sína, en óska eftir frekari samningaviðræðum um ákveðin atriði í friðaráætlun Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna. Í yfirlýsingu frá Hamas kemur fram að samtökin vilji frelsa alla ísraelska fanga, hvort sem þeir eru lifandi eða látnir, í samræmi við tillögur Trumps um fangaskipti milli Hamas og Ísrael.
Donald Trump hefur sagt að Hamas sé reiðubúið til að stuðla að friði. Forsetinn hefur beðið ísraelska herinn um að hætta tafarlaust sprengjuaðgerðum á Palestínu. „Yfirlýsingar Trumps Bandaríkjaforseta um tafarlaus endalok sprengjuaðgerða ísraelska hersins á Gaza-ströndina eru hvetjandi, og Hamas er reiðubúið að hefja strax viðræður um hvernig eigi að standa að fangaskiptum og að tryggja að ísraelski herinn yfirgefi Gaza-ströndina,“ segir Taher al-Nounou, talsmaður Hamas.
Friðaráætlun Trumps felur í sér 20 lið. Þar er m.a. að öllum gíslum sem Hamas tók í hald í árás sinni á Ísrael 7. október 2023 verði sleppt. Einnig er í áætluninni að Ísraelar leysi 250 fanga úr haldi, auk 1.700 Gazabúa sem voru handteknir eftir sama dag. Talið er að 48 gíslarnir séu enn í haldi Hamas-samtakanna, en aðeins 20 þeirra sé talið vera á lífi.