Volódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur lýst því yfir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sé að undirbúa innrás í annað Evrópuríki. Selenskí fullyrðir að Rússar beri ábyrgð á þeim drónum sem hafa sést í lofthelgi Danmerkur undanfarið.
Þetta kom fram í ræðu Selenskí eftir fund með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóða í New York um helgina. Þar sagði Selenskí að Rússar væru að undirbúa stærra stríð.
„Pútín mun ekki bíða eftir að ljúka stríðinu í Úkraínu. Hann mun hefja nýtt stríð en enginn veit hvar. Þetta er það sem hann vill,“ sagði Selenskí.
Selenskí benti á að yfirvöld í Kreml væru að kanna getu Evrópu til að verja lofthelgi sína, sérstaklega eftir að drónar hafa sést í Póllandi og Rúmeníu, auk þess sem rússneskar orrustuþotur hafa brotið gegn lofthelgi Eistlands.
Fleiri drónar hafa einnig sést á föstudagskvöld yfir danskri herstöð og á laugardag yfir norskri herstöð. Selenskí sagði að ESB stæði frammi fyrir erfiðleikum við að bregðast við þessari „nýju og hættulegu“ ógn.
Hann benti einnig á að fulltrúar nokkurra ónefndra ríkja væru á leið til Úkraínu til að fá „hagnýta þjálfun“ í að verjast loftárásum Rússa. „Við erum tilbúin að deila reynslu okkar,“ sagði Selenskí.